Nýr leikur CCP fylgir Samsung símum

Skjáskot úr Gunjack

Nýjasta kynslóð Samung snjallsíma í Bandaríkjunum mun hafa að geyma nýjasta leik íslenska leikjaframleiðandans CCP. Samstarfssamningur þeirra á milli var tilkynntur á sunnudag í Barcelona, á sama tíma og nýja snjallsímakynslóðin var afhjúpuð.

„Við erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf. Samningurinn er mjög mikilvægur fyrir fyrirtækið og þessa leiki sömuleiðis,“ segir Eldar Ástþórsson markaðsstjóri CCP í samtali við mbl.is.

Lyftistöng í samstarfi við Samsung

Leikurinn, sem ber nafnið Gunjack, kom út í nóvember síðastliðnum og er af gerð sýndarveruleikja (e. virtual reality games). Hefur hann fengið mjög góðar viðtökur og er mest seldi leikurinn fyrir Gear VR tækið frá Samsung. Það tæki mun fylgja öllum kaupum á nýjustu kynslóð Samsung snjallsímanna vestanhafs, og leikurinn þar með.

„Við erum virkilega stolt og ánægð með þann árangur sem leikurinn hefur náð nú þegar. Hann hefur fengið feykilega góða dóma og þetta samstarf við Samsung mun vera enn ein lyftistöng fyrir leikinn.“

Skjáskot úr Gunjack

Brátt von á Valkyrie

Í lok marsmánaðar er von á annarri afurð fyrirtækisins sem margir hafa beðið eftir í nokkurn tíma. EVE: Valkyrie heitir hann og var kynnt­ur á aðal­kynn­ingu SONY á einni stærstu leikjaráðstefnu heims, E3, í júní síðastliðnum.

Hann mun svo fylgja í kaupbæti við sölu fyrstu Oculus Rift tækjanna þegar þau koma út. Fyrirtækið Oculus er í eigu Facebook og þykir leiðandi á hinum nýja markaði sýndarveruleikja.

CCP hefur lengi framleitt og séð um leikinn EVE Online en nú virðist fyrirtækið vera að tryggja sér fótfestu á nýjum markaði með sýndarveruleiki, sem gæti stækkað ört á komandi misserum.

„Hann er mjög lítill enn sem komið er en við höfum trú á því að þar séu ákveðin tækifæri til framtíðar hvað varðar leikjahönnun. Við erum þegar komin með leiðandi stöðu á þessum markaði bæði með Gunjack og núna verður spennandi að sjá hvernig EVE: Valkyrie reiðir af. Viðbrögðin sem við höfum fengið hingað til hafa verið gríðarlega sterk og því erum við mjög bjartsýn á árangur Valkyrie sömuleiðis.“

Frétt mbl.is: Fjölmiðlar fagna nýjum leik CCP

Merki leiksins Gunjack
Merki leiksins Gunjack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert