Nýr dómur gefur Apple byr í seglin

Fjölmennt var fyrir utan verslun Apple í New York í …
Fjölmennt var fyrir utan verslun Apple í New York í febrúar til stuðnings fyrirtækinu gegn FBI. AFP

Dómarinn, sem dæmir við dómstól í Brooklyn, hafnaði kröfu bandaríska dómsmálaráðuneytisins um að fá Apple til að aflæsa símanum, sem er í eigu grunaðs manns í eiturlyfjamáli.

Í öðru máli, sem mikið hefur verið til umræðu, vill FBI að Apple aflæsi síma Syed Rizwan Farook, sem drap 14 manns í San Bernardino í Kaliforníu í desember síðastliðnum. En Apple hefur spyrnt við fótum og sagt kröfuna hættulega án nokkurra fordæma.

Dómsmálin alls ótengd

Sérfræðingur BBC segir dómsmálin ótengd með öllu, dómsvaldið í San Bernardino þurfi þannig ekki að veita úrskurði og athugasemdum dómarans í Brooklyn neina athygli.

En forsvarsmenn Apple telja ákvörðun dómarans gefa afstöðu sinni aukið vægi. Talsmaður Apple sagði á blaðamannafundi að hann væri fullviss um að dómarinn í San Bernardino myndi gefa úrskurði kollega síns mikinn gaum.

Mörgum er eðlilega hugað um einkaupplýsingar og gögn sem þeir …
Mörgum er eðlilega hugað um einkaupplýsingar og gögn sem þeir segja stjórnvöld ekki eiga rétt á að skoða. AFP

Ekkert fordæmi gefið

Heillavænlegast fyrir Apple er þó ástæðan sem dómarinn í Brooklyn gaf fyrir að vísa málinu frá. Sagðist hann alls ekki vera sannfærður um að svokölluð All Writs lög, sem eru meira en tveggja alda gömul, gætu stutt við kröfu FBI á hendur Apple. Sömu lög eru nefnilega undir í San Bernardino-málinu.

All Writs lögin eru hönnuð til að veita löggæslunni völd sem ekki er sérstaklega fjallað um í öðrum lögum, en svo hægt sé að notast við þau þarf að uppfylla ströng skilyrði. Ekkert fordæmi hefur því verið gefið með Brooklyn-málinu, en á meðan dómsvaldið í San Bernardino íhugar á hvorn veg skuli úrskurða, virðist meðbyrinn vera í seglum tölvurisans.

14 myrtir og 22 slösuðust

Fjórtán manns voru myrtir og 22 slösuðust þegar Farook og kona hans Tashfeen Malik hófu skotárás í San Bernardino í desember.

Dómsúrskurður í Kaliforníu krafðist þess af Apple að fyrirtækið myndi aðstoða FBI við að komast hjá öryggishugbúnaði í iPhone síma Farook, sem FBI segir hafa að geyma veigamiklar upplýsingar.

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. EPA

Stjórnvöld seilist of langt

Tim Cook forstjóri Apple segir stjórnvöld vera að seilast of langt með kröfunni og ef fallist væri á hana þá ætti fyrirtækið á hættu að gefa yfirvöldum völd til að grípa gögn úr símum hvers sem er.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið segist munu áfrýja úrskurðinum sem féll í Brooklyn.

Fyrri umfjallanir mbl.is:

Apple ætlar ekki að aðstoða FBI

Tæknirisar fylkja liði með Apple

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert