Áskrifendur Spotify 30 milljónir

Daniel Ek, framkvæmdastjóri og stofandi Spotify.
Daniel Ek, framkvæmdastjóri og stofandi Spotify. AFP

Áskrifendur tónlistarveitunnar Spotify eru orðnir 30 milljónir um heim allan. Daniel Ek, stofnandi fyrirtækisins, greindi frá þessum áfanga á Twitter í dag þegar hann tjáði sig um sögulega heimsókn Barack Obama, Bandaríkjaforseta, til Kúbu.

„Við erum með 30 milljón áskrifendur að Spotify en enginn þeirra er í Kúbu...enn sem komið er. Ótrúlega svalt að sjá að Kúba er að opnast,“ tísti hinn 33 ára Svíi.

Tónlistarsveitur á borð við Spotify hafa notið vaxandi vinsælda síðustu ár.

Spotify greindi frá því í júní síðastliðnum að áskrifendur veitunnar væru orðnir 20 milljónir af þeim rúmlega 75 milljónum sem notuðu hana reglulega.

Hægt er að hlýða á Spotify í 58 löndum, mestmegnis í þróuðum  ríkjum en einnig í þó nokkrum þróunarríkjum í Suður-Ameríku.

Apple Music í öðru sæti 

Tónlistarveitan Apple Music er sú næststærsta í heiminum með um 11 milljónir áskrifenda og næst á eftir kemur Deezer með sex milljónir áskrifenda, sem flestir eru í Evrópu.

Áskrifendur Tidal, tónlistarveitu rapparans Jay-Z og fleiri stjarna, voru ein milljón talsins í september síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert