Fann frið fyrir dauðann

Reykmökkur eftir sprenginguna í eldflaug Challenger í janúar árið 1986.
Reykmökkur eftir sprenginguna í eldflaug Challenger í janúar árið 1986. AFP

Verkfræðingurinn Bob Ebeling sem reyndi í örvæntingu að vara NASA við því að skjóta geimskutlunni Challenger á loft var þjakaður af sektarkennd í þrjátíu ár eftir slysið og taldi sjálfan sig aumingja. Skömmu fyrir andlát sitt fyrr í vikunni hlaut Ebeling uppreist æru og segir fjölskylda hans að hann hafi þá getað dáið frjáls. 

Allir geimfararnir sjö sem voru um borð í Challenger fórust þegar geimskutlan rifnaði í sundur skömmu eftir geimskotið í janúar árið 1986. Gúmmíhringur sem hélt saman samskeytum eldflaugar við eldsneytistanka gaf sig sem leiddi til mikillar sprengingar.

Ebeling starfaði sem eldflaugaverkfræðingur fyrir Morton Thiokol, verktaka bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sem hannaði hringina. Dagana fyrir slysið reyndu hann og aðrir verkfræðingar fyrirtækisins að sannfæra yfirmenn NASA um að fresta geimskotinu vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af því að gúmmíhringirnir gætu gefið sig í þeim mikla kulda sem var í Flórída um þær mundir.

NASA lét viðvaranir þeirra sem vind um eyru þjóta og skaut Challenger á loft með fyrrgreindum afleiðingum. Slysið lagðist þungt á samvisku Ebeling sem hafði meðal annars skrifað minnisblað undir fyrirsögninni „Hjálp!“ um vandamálið með gúmmíhringina.

„Þú valdir aumingja“

Djúpstæð sektarkennd nagaði Ebeling að innan sem taldi sig hafa getað og hafa átt að gera meira til að koma í veg fyrir harmleikinn. Hann hafi getað fært betri rök fyrir máli sínu. Aðrir menn hefðu getað stöðvað geimskotið.

„Af hverju ég? Þú valdir aumingja,“ sagðist Ebeling ætla að spyrja guð eftir andlátið.

„Ég held að það séu ein af mistökunum sem guð gerði. Hann hefði ekki átt að velja mig í þetta starf,“ sagði Ebeling við bandaríska ríkisútvarpið NPR fyrr á þessu ári þegar þrjátíu ár voru liðin frá Challenger-slysinu.

Þeir sem hlýddu á viðtalið við Ebeling voru hins vegar ekki á sama máli og bárust honum hundruð bréfa í kjölfarið frá fólki sem sagði honum að hann hefði gert allt sem í hans valdi stóð. Þrátt fyrir það var Ebeling ekki sannfærður og sagði blaðamanni NPR að hann þyrfti að heyra það beint frá NASA eða Morton Thiokol.

„Það er auðvelt að segja þetta. En eftir að hafa heyrt þetta er ég enn með sektarkennd hérna,“ sagði Ebeling í viðtalinu við NPR og benti á hjartað.

Gúmmíhringur í eldsneytistanki eldflaugarinnar gaf sig en Ebeling og fleiri …
Gúmmíhringur í eldsneytistanki eldflaugarinnar gaf sig en Ebeling og fleiri verkfræðingar höfðu varað við hættunni á því dagana fyrir Challenger-slysið. AFP

Gerði allt sem í hans valdi stóð

Blaðamaðurinn Howard Berkes hjá NPR, sem hafði talað við Ebeling og nokkra kollega hans undir nafnleynd skömmu eftir slysið á sínum tíma og birti fyrstu fréttina um að NASA hafi vitað af hættunni, setti sig því í samband við fyrrverandi yfirmenn verktakans og geimvísindastofnunarinnar.

„Ég hringdi og sagði honum: Þú veist að fyrir mér er skilgreiningin á aumingja einhver sem gerir í rauninni ekkert og það sem verra er, er alveg sama. Ég sagði: þú gerðir eitthvað og það skipti þig virkilega máli. Það er skilgreiningin á sigurvegara,“ sagði Allan McDonald, fyrrum yfirmaður Ebeling hjá Mortin Thiokol sem reyndi án árangurs að bera áhyggjur verkfræðinganna undir stjórnendur NASA á sínum tíma.

Eins bar Berkes þau skilaboð til Ebeling frá George Hardy, einum yfirmanna NASA sem tók ákvörðunina um að skjóta Challenger á loft þrátt fyrir viðvaranirnar, að Ebeling og kollegar hans hafi gert allt sem af þeim var ætlast.

„Ákvörðunin var sameiginleg ákvörðun nokkurra einstaklinga hjá NASA og Morton Thiokol. Þú ættir ekki að kvelja þig með sök sem þú hefur tekið á sjálfan þig,“ voru skilaboð Hardy til Ebeling.

„Þakka þér fyrir!“ hrópaði Ebeling upp yfir sig þegar honum voru færð skilaboðin.

Forstöðumaður NASA, Charles Bolden, viðurkenndi einnig hlutverk manna eins og Ebeling sem hefðu hugrekki til að stíga fram til að vernda geimfara í yfirlýsingu sem hann gaf út.

Náði að sleppa takinu á sektarkenndinni

Þessi viðurkenning virðist hafa létt steini af hjarta Ebeling. Dóttir hans sagði við Washington Post í síðasta mánuði að það væri kraftaverki líkast. Hún hafi spurt föður sinn hvort að bréfin hafi hjálpað honum að finna frið. Hann svaraði því játandi.

„Hann þarf ekki að deyja með þessa nagandi sektarkennd. Hann getur dáið frjáls,“ sagði dóttir hans Kathy þá.

Ebeling lést á mánudag, 89 ára að aldri.

„Það var eins og hann hefði fengið leyfi frá heiminum. Honum tókst að sleppa takinu af þessum hluta lífs síns,“ sagði dóttir hans Leslie við NPR.

Frétt Washington Post af andláti Bob Ebeling

Fyrri frétt mbl.is: 30 ár frá Challenger-slysinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert