Vilja forða karlkyns ungum frá því að vera tættir og kramdir

Blaðamaður heldur á unga á rannsóknarstofunni við Dresden-háskóla.
Blaðamaður heldur á unga á rannsóknarstofunni við Dresden-háskóla. AFP/JOHN MACDOUGALL

Í kjallara einnar byggingar Dresden-háskóla vinna þýskir vísindamenn að þróun aðferðar sem kann að bjarga milljónum hænuunga frá því að vera tættir eða kramdir til bana um leið og þeir hafa skriðið úr eggi.

Örlög unganna ráðast einfaldlega af því hvort þeir eru karlkyns eða kvenkyns, en hanar þykja heldur gagnslausir þegar kemur að kjúklingaeldi. Þar er því ekki eingöngu um að kenna að þeir verpa ekki eggjum, heldur nýtur kjöt þeirra ekki sérlegra vinsælda.

Af þessum orsökum er karlkyns ungum kerfisbundið útrýmt. Í mörgum tilfellum eru þeir tættir eða kramdir til dauða og notaðir í dýrafóður.

Við Dresden-háskóla vinna Gerald Steiner og teymi hans hins vegar að því að koma í veg fyrir slátrun unganna með því að greina kyn þeirra áður en þeir skríða úr eggi. Til þess nota þeir litrófsgreiningu, sem er þegar notuð til að greina á milli heilbrigðra fruma og krabbameinsfruma í mannfólki.

Litrófsgreining er þegar notuð til að greina milli krabbameinsfruma og …
Litrófsgreining er þegar notuð til að greina milli krabbameinsfruma og heilbrigðra fruma í mannfólki. AFP/JOHN MACDOUGALL

Að verkefninu koma m.a. dýralæknar, efnafræðingar, verkfræðingar og eðlisfræðingar, auk tveggja einkarekinna fyrirtækja. 

Þegar litrófsgreiningunni er beitt eru egginn þriggja daga gömul og æðar hafa myndast, en ekki taugafrumur. Teymið sem stendur að rannsókninni telur mannúðlegra að ákvarða örlög ungans áður en hann kemur úr egginu.

Verkefnið nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar og nú þegar geta vísindamennirnir kyngreint egg með 95% áreiðanleika. Landbúnaðarráðherra Þýskalands, Christian Schmidt, hefur heitið því að frá árinu 2017 verði fallið frá því að tæta og kremja karlkyns hænuunga.

Vísindamennirnir segja mannúðlegra að greina kynið áður en unginn kemur …
Vísindamennirnir segja mannúðlegra að greina kynið áður en unginn kemur úr egginu, en þannig er hægt að farga því áður en taugafrumur myndast. AFP/JOHN MACDOUGALL
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka