Apple tapar hugverkamáli í Kína

AFP

Kínversk einkaleyfastofnun hefur úrskurðað að Apple hafi brotið gegn hugverkarétti kínverska snjallsímaframleiðandans Baili. Telur stofnunin að útlit nýju iPhone 6- og iPhone 6 Plus-símanna sé of líkt 100C-símanum sem Baili framleiðir. Ef Apple áfrýjar ekki úrskurðinum þyrfti að taka umrædda síma úr sölu í Peking. Úrskurðurinn nær aðeins til kínversku höfuðborgarinnar en gæti haft áhrif á niðurstöðu svipaðra hugverkaréttarmála annars staðar í landinu, að því er Bloomberg greinir frá.

Kína er næststærsti markaður heims fyrir Apple-vörur, næst á eftir Bandaríkjunum. Úrskurðurinn nú kemur í kjölfarið á þeirri ákvörðun kínverskra stjórnvalda í apríl að loka fyrir kvikmynda- og bókaveitu Apple vegna brota á reglum um erlenda útgáfustarfsemi. Þá tapaði Apple einnig dómsmáli í maí þegar fyrirtæki sem framleiðir fylgihluti á borð við veski og handtöskur fékk viðurkenndan rétt sinn til að mega nota vörumerkið „iPhone“ á vörum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert