Ósongatið yfir Suðurskautslandinu að gróa

Myndin sýnir styrk ósonlagsins yfir Suðurskautslandinu 2. október 2015.
Myndin sýnir styrk ósonlagsins yfir Suðurskautslandinu 2. október 2015. NASA/Goddard Space Flight Center

Vísindamenn segjast hafa séð fyrstu skýru merkin um að gatið í ósonlagi jarðar yfir Suðurskautslandinu sé að minnka. Árangurinn þakka þeir því að ósoneyðandi efni hafa verið tekin úr notkun fyrir tilstilli alþjóðlegs samkomulags sem gert var árið 1987.

Gatið í ósonlaginu reyndist um fjórum milljónunum ferkílómetra smærra í september í fyrra en á sama tíma árið 2000. Það er svæði sem er um það bil á stærð við Indland. Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að áhrif klórflúorkolefna á ósonlagið fari minnkandi en höfundar nýju rannsóknarinnar segja að þetta séu fyrstu vísbendingar um að sárið sé að gróa og að ósonlagið sé að vaxa aftur.

Menn uppgötvuðu fyrst að ósonlagið í heiðhvolfinu hefði þynnst verulega yfir Suðurskautslandinu um miðjan 9. áratug síðustu aldar. Það voru ill tíðindi því ósonlagið verndar líf á jörðinni fyrir hættulegri geislun frá sólinni. Þynning þess gat þannig meðal annars aukið líkur á húðkrabbameinum í mönnum.

Fljótlega kom í ljós að ástæðan var klórflúorkolefni sem notuð voru í hárspreyi, ísskápum og loftkælikerfum á þeim tíma. Notkun slíkra efna var bönnuð með Montreal-sáttmálanum sem var undirritaður árið 1987.

Prófessor Susan Solomon, sem stóð að rannsókninni, segir að klórefnin lifi í um 50-100 ár í andrúmsloftinu og þau séu smám saman byrjuð að brotna niður. Rannsóknin birtist í tímaritinu Science.

„Við búumst ekki við því að sjá algeran bata fyrr en um 2050 eða 2060 en við erum byrjuð að sjá að í september var ósongatið ekki eins slæmt og það var,“ segir Solomon.

Skammt er síðan mælingar sýndu að gatið í ósonlaginu hafði aldrei verið stærra yfir Suðurskautslandinu í október í fyrra. Vísindamennirnir telja að eldgos hafi verið lykiláhrifavaldurinn í því meti. Eldgosið í Calbuco í Síle hafi þannig haft veruleg áhrif á þynninguna.

Ekki eru þó allir á sama máli. Paula Newman frá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA segir gögnin benda til verulegra sveiflna frá ári til árs sem séu mun stærri en sú þróun sem aðstandendur rannsóknarinnar í Science ráði í þau.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert