Fara fjallabaksleiðina að geimstöðinni

Geimfararnir þrír, frá vinstri: Kate Rubins, Anatólí Ivanishin og Takuya …
Geimfararnir þrír, frá vinstri: Kate Rubins, Anatólí Ivanishin og Takuya Onishi fyrir framan Soyuz-eldflaugina sem skýtur þeim út í geim í nótt. AFP

Ferð geimfaranna þriggja sem skotið verður á loft til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í nótt tekur lengri tíma en venjulega. Yfirleitt tekur ferðin aðeins um sex klukkustundir en ferðalangarnir eiga að prófa uppfærslur á Soyuz-geimferjunni á tveggja daga ferðalagi á áfangastað.

Geimferjunni verður skotið á loft frá Baikonur-skotpallinum í Kasakstan klukkan 01:36 að íslenskum tíma í nótt. Þrír geimfarar verða um borð: Bandaríkjamaðurinn Kate Rubins frá NASA, Rússinn Anatólí Ivanishin og Japaninn Takuya Onishi. Þau munu fara 34 hringi í kringum jörðina áður en Soyuz-geimferja þeirra tengist Alþjóðlegu geimstöðinni kl. 04:12 aðfaranótt laugardags.

Þröngt mega sáttir sitja því rýmið um borð í geimferjunni er svipað og í sendiferðabíl. Á þessum tveimur dögum ætla þremenningarnir að prófa nýjan sendi fyrir stafræn myndbönd til að senda verkfræðingum myndir af aðflugi ferjunnar að geimstöðinni, bætt gervihnattasiglingakerfi sem gerir geimferjunni kleift að reikna betur út afstöðu sína í geimnum og fleiri uppfærð tæki. Tekið skal fram að búið er að prófa búnaðinn án geimfara um borð.

Alls eiga geimfararnir þrír að dvelja í um fjóra mánuði í Alþjóðlegu geimstöðinni. Rubins verður sextugasta konan til þess að fara út í geim.

Fyrir árið 2013 tók ferðalagið til geimstöðvarinnar tvo daga en þá tók rússneska geimstofnunin Roscosmos í gagnið nýja tækni sem kom geimförunum á áfangastað á aðeins sex tímum.

Frétt Space.com

Kate Rubins verður sextugasta konan til að ferðast út í …
Kate Rubins verður sextugasta konan til að ferðast út í geim. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert