Safnar sýnum úr smástirni

OSIRIS-REx var skotið á loft með Atlas V-eldflaug á fimmtudag.
OSIRIS-REx var skotið á loft með Atlas V-eldflaug á fimmtudag. AFP

Sjö ára leiðangur bandaríska geimfarsins OSIRIS-REx til smástirnisins Bennu hófst á fimmtudag þegar því var skotið á loft með Atlas V-eldflaug frá Canaveral-höfða. Markmið leiðangursins er að safna sýnum úr smástirninu og skila þeim svo aftur til nákvæmra rannsókna á jörðinni.

Bennu er eitt svonefndra Apollo-smástirna sem ganga á braut um sólina og skera sporbraut jarðarinnar. OSIRIS-REx á að koma að smástirninu árið 2018 og hefja athuganir á sporbraut, sem munu vara í allt að tvö ár. Þær athuganir munu vísindamenn NASA nota til að velja heppilegan stað á smástirninu til að rannsaka frekar, að því er kemur fram í frétt Space.com.

OSIRIS-REx verður síðan flogið þétt upp að Bennu og látið tylla sér mjúklega á yfirborðið. Þar mun það blása út köfnunarefni og þyrla þannig upp yfirborðsefni sem geimfarið fangar í söfnunardisk. Gangi allt eftir áætlun er geimfarið væntanlegt með sýnin til jarðar árið 2023. Geimfarið á að senda 60 grömm af smástirnaryki í hitavörðu hylki niður til jarðar en það á að lenda á afskekktu svæði í Utah í Bandaríkjunum.

Vísindamenn telja að smástirni eins og Bennu séu leifar frá þeim tíma þegar sólkerfið okkar myndaðist fyrir 4,5 milljörðum ára. Sýnin þaðan gefa þannig mönnum betri hugmynd úr hvers konar hráefnum sólin, jörðin og hinar reikistjörnurnar urðu til.

„Kjarni OSIRIS-REx er uppruninn, leitin að uppruna sólkerfisins og lífsins sjálfs. Fyrir þá leit snýst allt um sýnið,“ segir Jason Dworkin, einn vísindamanna leiðangursins.

Sérstaklega eru vísindamennirnir á höttunum eftir lífrænu efni. Kenningar eru um að smástirni eins og Bennu hafi komið með nauðsynjar lífs, kolefnissambönd og vatn, til jarðarinnar með árekstrum fyrr í sögu sólkerfisins. Með því að skoða Bennu í návígi geta vísindamenn því séð hvers konar efni bárust til jarðarinnar á þessu tímabili.

Verkfræðingur fer yfir geimfarið OSIRIS-REx í síðasta mánuði.
Verkfræðingur fer yfir geimfarið OSIRIS-REx í síðasta mánuði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert