Með páfagauksgogg og bursta á halanum

Líkanið af páeðlunni í grasagarðinum í Bristol. Risaeðlan er talin …
Líkanið af páeðlunni í grasagarðinum í Bristol. Risaeðlan er talin hafa vafrað um skóglendi Kína fyrir um 120 milljónum ára. ljósmynd/Jakob Vinther

Páeðlan svonefnda var með gogg sem líktist páfagauksgoggi, með bursta á halanum og var á stærð við labrador-veiðihund. Þrívíddarlíkan af henni sem hópur vísindamanna kynnti í dag er nákvæmasta endurbygging á risaeðlu fram að þessu. Hún var gerð á grundvelli einstaks steingervings sem varðveitti húð og litarefni dýrsins. 

Steingerðar leifar páeðla (e. psittacosaurus) finnast reglulega í Kína en tegundin er ein þeirra risaeðlutegunda sem ýtarlegast hafa verið rannsakaðar. Þessi sérstaklega vel varðveitti steingervingur gerði hins vegar vísindamönnum við Háskólann í Bristol á Englandi kleift að búa til nákvæmt líkan af dýrinu sem talið er hafa verið uppi fyrir um 120 milljónum ára.

Endurbyggingin sýnir að páeðlan var að mestu leyti brún á lit en kveður hennar og neðri hluti halans var ljósleitari. Litirnir benda til þess að páeðlan sem gekk á tveimur afturfótum hafi lifað í skóglendi þar sem takmarkað sólarljóst barst í gegnum þétt laufþykknið. Þeir hafi hjálpað henni að fela sig fyrir stærri kjötætum.

„Líkanið okkar bendir til þess að hún hafi verið ofur-, ofursæt. Ég held að þær hefðu verið frábær gæludýr. Þær líktust svolítið E.T.,“ sagði Jakob Vinther, sameindasteingervingalíffræðingur við Háskólann í Bristol þegar endurgerðin var kynnt í dag. Grein um rannsóknina birtist í ritinu Current Biology.

Í frétt Reuters kemur fram að þetta sé í þriðja skipti sem vísindamönnum tekst að endurskapa lit risaeðla út frá steingerðum leifum svokallaðra sortuagna. Þær mynda og geyma litarefnið melanín sem er til staðar í hári, fjöðrum og húð hryggdýra. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem vísindamenn hafa treyst sér til að setja fram tilgátu um búsvæði risaeðlu út frá litarhafti hennar.

Frétt Reuters

Steingerðar leifar páeðlunnar sem varðveitti hluta af húð og litarefni …
Steingerðar leifar páeðlunnar sem varðveitti hluta af húð og litarefni dýrsins. ljósmynd/Jakob Vinther og Robert Nicholls
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert