Gefa börnum smátölvu

Microbit er forritanleg tölva sem er hönnuð af BBC.
Microbit er forritanleg tölva sem er hönnuð af BBC.

Öll grunnskólabörn í 6.  og 7. bekk fá gefins Microbit forritunarlega smátölvu frá nokkrum stofnunum. Tilgangurinn er að vekja áhuga þeirra á forritun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Menntamálastofnun og  RÚV hafa tekið höndum saman um átaksverkefnið með það að markmiði að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum.

Verkefnið felst í því að Microbit, forritanleg smátölva, verður gefin öllum grunnskólabörnum í 6. og 7. bekk. Samhliða því verða kynnt fjölþætt verkefni, fræðsluefni og leiðir sem nemendur, kennarar og foreldrar geta nýtt sér til að kynnast heimi forritunar m.a. með notkun Microbit tölvunnar. Forritunarvinna reynir ekki aðeins á rökhugsun heldur einnig hugmyndauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun. Á næstu vikum verða í kringum 9000 Microbit smátölvur afhentar.  

Microbit er forritanleg tölva sem er hönnuð af BBC og fjölda samstarfsaðila til að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim forritun. Microbit er einskonar byrjendaútgáfa af Raspberry Pi eða Arduino tölvunum en verkefnið var upphaflega sett í gang í Bretlandi þar sem mikill skortur er á kennurum sem geta kennt forritun og því vantar að fleiri nemendur skili sér inn í heim tækni og forritunar,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert