Sjaldséð jarðsetur á tunglinu

Jörðin vex og dvínar frá tunglinu séð alveg eins og …
Jörðin vex og dvínar frá tunglinu séð alveg eins og tunglið frá jörðinni. Á mynd Kaguya er jörðin hálf. ljósmynd/JAXA/NHK

Hálfupplýst og bláleit skífa jarðarinnar hnígur til viðar á bak við myrk mánafjöll á mynd sem japanska geimfarið Kaguya tók í leiðangri sínum. Tunglið snýr alltaf sömu hliðinni að jörðinni og því er geimfar á braut um tunglið eina leiðin til að sjá jarðarupprás eða jarðsetur.

Myndin var rifjuð upp á Facebook-síðu Stjörnufræðivefjarins með fróðleiksmola um samband jarðar og tunglsins í gær. Þar kemur fram að jörðin er nánast alltaf á sama stað á tunglhimninum þar sem það snýr alltaf sömu hlið að jörðinni. Vegna vaggs tunglsins virðist jörðin hins vegar vagga örlítið á tunglhimninum.

Frá tunglinu séð virðist jörðin vaxa og dvína, alveg eins og tunglið frá jörðu séð. Þegar tunglið er fullt frá okkur séð snýr næturhlið jarðar að tunglinu en þegar tunglið er nýtt frá okkur séð, er jörðin full á tunglhimninum og lýsir upp tunglnóttina. Þegar tunglið er hálft frá jörðu séð er jörðin líka hálf frá tunglinu séð en þegar tunglið er vaxandi eða minnkandi sigð frá jörðu séð, er jörðin vaxandi eða minnkandi gleið séð frá tunglinu.

Þá er jörðin um fjórfalt stærri á himni frá tunglinu séð en tunglið frá jörðinni. Jörðin endurvarpar einnig mun meira sólarljósi en tunglið og er því miklu bjartari á tunglhimninum en tunglið á næturhimni jarðar.

Japanska geimvísindastofnunin JAXA skaut Kaguya á loft árið 2007. Geimfarinu var ætlað að rannsaka uppruna tunglsins, jarðsögu þess, yfirborð og þyngdarsvið. Leiðangrinum lauk árið 2009 þegar Kaguya var brotlent á tunglinu. Myndina tók geimfarið með háskerpumyndavél sinni í janúar árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert