Vafasamar fullyrðingar aftur á kreik

Útlit er fyrir að árið í ár verði það hlýjasta …
Útlit er fyrir að árið í ár verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust. Gamalkunnar raddir afneitunar eru hins vegar byrjaðar að heyrast aftur. AFP

Ritstjóri veðurfrétta hjá Washington Post hefur séð ástæðu til þess að hrekja sérstaklega það sem hann kallar „svívirðilegar fullyrðingar“ sem dreift hefur verið í útbreiddum fjölmiðlum, meðal annars um að meðalhiti jarðar hafi tekið metdýfu. Fullyrðingarnar eru af svipuðum meiði og loftlagsafneitarar hafa áður sett fram.

Jason Samenow, ritstjóri veðurfrétta hjá Washington Post og aðalveðurfræðingur Capital Weather Gang, segir ekkert nýtt að lélegar upplýsingar um veður og loftslag birtist á netinu. Hann sá hins vegar ástæðu til að hrekja tvær fullyrðingar af þessu tagi eftir að þær fengu dreifingu hjá fjölmiðlum með töluverða útbreiðslu eins og Daily Mail í Bretlandi og Breitbart í Bandaríkjunum.

Daily Mail, sem er þekkt fyrir afneitun á loftslagsvísindum sem birtast á síðum blaðsins, birti þannig grein í síðustu viku þar sem því var haldið fram að meðalhiti við yfirborð landsvæða jarðar hafi lækkað meira en nokkru sinni fyrr. Sú frétt var tekin upp hjá öfgahægrisíðunni Breitbart og var meðal annars dreift á Twitter-síðu vísinda-, geim- og tækninefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem repúblikanar ráða.

Vísindalega óábyrgar fullyrðingar

Samenow bendir hins vegar á að fullyrðingar um að meðalhitinn hafi lækkað um meira en 1°C frá því um mitt árið séu ekki bara blekkjandi heldur algerlega merkingarlausar. Frétt Daily Mail byggist aðeins á mælingum gervihnatta á yfirborðshitanum úr geimnum en þau gögn nái aðeins aftur til 1978. Beinar hitastigsmælingar sem gerðar eru á yfirborðinu nái hins vegar allt aftur á seinni hluta 19. aldar. Þær bendi til hitastigslækkunar en ekki metlækkunar.

Það sem enn verra er, sé ekki tekið tillit til þess í grein breska blaðsins að meðalhiti jarðar, bæði lands og sjávar, hafi ekki lækkað meir en nokkru sinni áður. Þannig féll hann mun meira árið 1998 þegar sérstaklega sterkum El niño slotaði.

Lækkunin á hitastigi nú hafi verið viðbúin eftir öflugan El niño-viðburð sem hófst árið 2014 og fjaraði út fyrri hluta þessa árs.

„Það er vísindalega óábyrgt að gefa það í skyn að þetta þýði verulega breytingu á þróun hitastigs jarðarinnar. Allar langtímagreiningar á hitastigi jarðar sýna greinilega þróun upp á við, óháð sveiflum frá einu ári til annars,“ skrifar Samenow.

Dauður fiskur í uppþornuðum árfarvegi í Brasilíu síðasta haust.
Dauður fiskur í uppþornuðum árfarvegi í Brasilíu síðasta haust. AFP

Miðuðu við metár til að gera lítið úr hlýnuninni

Fullyrðingarnar sem Samenow hrekur í grein sinni líkjast mjög þeim sem afneitarar loftslagsvísinda hafa lengi beitt og tengjast El niño-viðburðinum árið 1998 sem var einn sá öflugasti sem sögur fara af. Með því að sérvelja gögn og velja það ár sem viðmiðunarár sitt héldu fulltrúar þrýstihópa og sumir stjórnmálamenn því fram að engin hlýnun hefði átt sér stað í mörg ár eftir El niño-viðburðinn.

El niño-ár eru sérstaklega líkleg til að slá öll hitamet. Með því að miða við fordæmalausa metárið sem 1998 var tókst loftslagsafneiturum að halda tímabundið fram að engin hlýnun hefði átt sér stað um leið og þeir hunsuðu hlýnunina sem var augljós þegar litið var á þróunina yfir lengra tímabil.

Frétt Mbl.is: Hitametahrinunni lýkur - í bili 

Halldór Björnsson, hópstjóri veður- og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofu Íslands, sagði við Mbl.is í júlí að það hafi tekið hnattræna hlýnun sjö ár að jafna hitametin sem slegin voru árið 1998. El niño þessa árs hefur einnig verið einn sá öflugasti sem um getur. Halldór spáði því að meðalhitinn myndi að líkindum lækka á næsta ári borið saman við árið í ár. Nær öruggt væri þó að hitamet verði slegin aftur innan tólf ára.

„Þótt hugsanlegur „skortur“ á metárum á næstu árum verði án efa fóður sumra til að segja að hnattræn hlýnun hafi stöðvast þá eru það ekkert sérstaklega sterk rök,“ sagði Halldór þá.

Hafa skyldu til að bregðast við villandi upplýsingum

Í pistli sínum á vefsíðu Washington Post gagnrýnir Samenow einnig útúrsnúning þekktra afneitunarsíðna eins og Climate Depot á fréttum um kuldakast sem veðurfræðingar spái að gangi yfir vestanverð Bandaríkin í næstu viku eftir mikil hlýindi í haust.

Fullyrt sé að metkuldi sé yfirvofandi um nær allt landið þar sem kuldamet verði slegin kirfilega. Samenow segir það fjarri lagi. Veðurlíkön bendi ekki til þess að metkuldi verði á ferðinni þó að vel geti verið að kuldamet verði slegin á einhverjum stöðum.

„Alvöru veðurfræðingum og loftslagsvísindamönnum um allt landið ber skylda til að bregðast við villandi upplýsingum af þessu tagi,“ segir Samenow..

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert