Japanar vilja tjóðra geimrusl

Tjóður yrði notað til þess að klófesta geimrusl á braut …
Tjóður yrði notað til þess að klófesta geimrusl á braut um jörðu. teikning/JAXA

Geimför með allt að sjö hundruð metra langt rafsegultjóður verða notuð til þess að fanga geimrusl á braut um jörðu og eyða því samkvæmt tækni sem japanska geimstofnunin gerir nú tilraunir með. Meira en hálf milljón hluta af geimrusli er á braut um jörðina. 

Jafnvel minnsta geimruslið getur valdið verulegum skemmdum á gervihnöttum og mönnuðum geimförum eins og Alþjóðlegu geimstöðinni ef það rekst á þau. NASA sagði árið 2013 að geimstofnanir fylgdust nú með rúmlega 500.000 hlutum geimrusls, þar á meðal væru 21.000 brot sem eru stærri en tíu sentímetrar að stærð.

Hugmynd Japana er að nota lítil geimför sem senda frá sér langt tjóður sem festir sig við geimruslið. Geimfarið dregur síðan geimruslið niður í lofthjúpinn þar sem bæði það og ruslið brennur upp.

Frumgerð af geimfarinu hefur þegar verið send til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar til prófana. Verkfræðingar hyggjast kanna hvernig gengur að senda út tjóðrið í geimnum. Geimfarið á fyrst og fremst að nota til að fjarlægja stærsta geimruslið, hluti sem eru allt frá hundrað kíló að þyngd og upp í fleiri tonn.

JAXA vonast til þess að tæknin verði tekin í notkun um miðjan næsta áratug, að því er segir í frétt Space.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert