Vörpuðu ljósi á andefni

Frá rannsóknastofu CERN í Genf. Vísindamenn þar hafa nú mælt …
Frá rannsóknastofu CERN í Genf. Vísindamenn þar hafa nú mælt eiginleika andefnis. AFP

Vísindamenn við Evrópsku kjarnorkurannsóknastofnunina (CERN) telja sig hafa fundið leið til að mæla andefni í fyrsta skipti. Þeim tókst að litrófsgreina andvetnisfrumeind en eðlisfræðinga hefur lengi dreymt um það til þess að skilja betur þessa torskildu ögn sem myndaðist ásamt hefðbundnu efni í Miklahvelli.

Andefni hefur eins og nafnið gefur til kynna andstæða eiginleika við hefðbundið efni. Andrafeindir, einnig þekktar sem jáeindir, hafa þannig jákvæða hleðslu en ekki neikvæða eins og hefðbundnar rafeindir og andróteindir hafa neikvæða hleðslu frekar en jákvæða. Fyrstu kenningar um andefni voru settar fram í kringum 1930 og hefur það tekið vísindamenn hátt í öld að búa andefni fyrst til á tilraunastofu og nú að mæla það.

Hægt er að framleiða andefni í öreindahröðlum með því að láta eindir rekast á. Andefni er hins vegar ákaflega fágætt utan tilraunastofa vegna þess að þegar efni og andefni mætast eyðir hvort öðru, eins og kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Alheimurinn hefði átt að verða efnislaus auðn

Því sætir tíðindum að vísindamennirnir við CERN segi frá því að þeim hafi tekist að mæla eiginleika andvetniseindar með því að skjóta leysigeisla á hana. Agnirnar í andfrumeindinni örvast af leysigeislanum, draga í sig sumar bylgjulengdir ljóssins en gefa frá sér aðrar. Með því að bera þetta litróf saman við það sem kemur frá hefðbundnum frumeindum telja vísindamennirnir sig geta öðlast dýpri skilning á andefni.

Tilraun þeirra leiddi í ljós að andvetnisfrumeindin hafði sömu eiginleika og hefðbundin vetnisfrumeind líkt og kenningin um andefni gerir ráð fyrir. Mælingin var hins vegar um 100.000 sinnum ónákvæmari en litrófsgreining á venjulegu vetni. Því eru vísindamennirnir varir um sig þar til þeim hefur tekist að gera frekari tilraunir með fleiri bylgjulengdir leysigeisla.

„Við erum eiginlega í skýjunum með að geta loksins sagt að við höfum gert þetta. Þetta er virkilega stórt fyrir okkur,“ segir Jeffrey Hangst, eðlisfræðingur við Árósarháskóla sem tók þátt í rannsókninni hjá CERN við NPR.

Ein leyndardómanna sem umlykur andefni er að ef það hefði myndast í sama magni og hefðbundið efni við Miklahvell þá hefðu þessar tvær agnir átt að eyða hvor annarri og alheimurinn átt að verða að efnislausri auðn.

„Eitthvað gerðist, eitthvað smávægilegt misræmi sem leiddi til þess að efni lifði af. Við höfum einfaldlega enga góða skýringu á því þessa stundina,“ segir Hangst ennfremur.

Umfjöllun Washington Post

Grein á Vísindavefnum um andefni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert