Hlaupsekúndu bætt við um áramótin

Klukkan slær 23:59:60 áður en hún slær miðnætti á gamlárskvöld.
Klukkan slær 23:59:60 áður en hún slær miðnætti á gamlárskvöld. AFP

Þeir sem geta ekki beðið eftir því árinu 2016 ljúki eftir röð uggvænlegra atburða og dauða ástsælla leikara og söngvara þurfa að bíða einni sekúndu lengur en venjulega því einni hlaupsekúndu verður bætt við árið á miðnætti á gamlársdag. Tilgangurinn er að samræma klukkur við snúningstíma jarðarinnar.

Þau lönd sem notast við samræmdan heimstíma, þar á meðal Ísland, Bretland, Írland og nokkur Vestur-Afríkuríki bæta hlaupsekúndunni við þannig að síðasta mínúta ársins verður 61 sekúnda. Í öðrum tímabeltum er tímasetning hlaupsekúndunnar ákveðin út frá heimstímanum.

Í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins kemur fram að jörðin hægir á snúningi sínum, að mestu vegna flóðkrafta frá tunglinu en líka af völdum jarðskjálfta, sem færa til massa á jörðinni sem breytir snúningstíma hennar, vindakerfa sem flytja snúningshraða frá skorpunni til lofthjúpsins og efnisstrauma djúpt í iðrum jarðar.

Án hlaupsekúndu yrði smám saman ósamræmi milli klukkna og stöðu sólar á himninum. Þannig myndi tímasetning sólarupprásar, hádegis og sólseturs færast til yfir daginn miðað við klukkuna okkar.

Síðast var hlaupsekúndu bætt við 30. júní í fyrra en þær voru fyrst teknar upp árið 1972. Hlaupsekúndan getur valdið vandræðum í gagnaskráningarforritum og fjarskiptatækjum. Staðla- og tæknistofnun Bandaríkjanna varar sérstaklega við að fylgjast þurfi vel með þessum kerfi í hvert skipti sem hlaupsekúndu er bætt við.

Vandræði hafa orðið á Íslandi vegna hlaupsekúndunnar. Mbl.is sagði frá því þegar hún truflaði raforkuvinnslu í Fljótsdalsstöð þegar nokkrar mínútur voru liðnar af nýja árinu 2009. Olli hún straumleysi hjá Fjarðaráli í um klukkustund. Samkvæmt frétt Mbl.is truflaði hlaupsekúndan stjórntölvukerfi véla stöðvarinnar.

Frétt Mbl.is: Hlaupsekúnda olli rafmagnsleysi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert