Fegurstu myndirnar af móður jörð

Þrumuský yfir Filippseyjahafi eins og þau komu fyrir sjónir geimfara …
Þrumuský yfir Filippseyjahafi eins og þau komu fyrir sjónir geimfara í Alþjóðlegu geimstöðinni. NASA

Myndirnar sem geimfarar taka af jörðinni út um glugga Alþjóðlegu geimstöðvarinnar eru eins og litrík listaverk sem sýna þetta eina heimili okkar í alheiminum í allri sinni fegurð. Starfsmenn Jarðvísinda- og fjarrannsóknadeildar Johnson-geimmiðstöðvar NASA hafa nú tekið saman sextán bestu myndirnar af jörðinni úr geimnum frá árinu sem er að líða.

Geimfararnir taka fjölda mynda frá geimstöðinni á hverju einasta ári en þær sem sjá má í meðfylgjandi myndbandi eru þær bestu að mati NASA. Á þeim bera meðal annars Fuji-fjall í Japan, björt borgarljósin í Dúbaí og rauðir sandar Namíbeyðimerkurinnar í sunnanverðri Afríku fyrir augu.

Í öðru myndbandi sem bandaríski geimfarinn Jeff Williams birti í vikunni má sjá afrakstur upptöku hans með háhraðamyndavél þegar hann dvaldi síðast í geimstöðinni fyrr á þessu ári. Williams, sem hefur dvalið lengur í geimnum en nokkur annar Bandaríkjamaður, segir í myndbandinu að hann hafi verið sleginn af fegurð jarðarinnar þegar hann leit út um glugga geimstöðvarinnar, bláma hafsins og hvítu skýjanna.

„Þegar maður er búinn að kemur aftur til jarðar dofna minningarnar fljótt. Að fanga minningarnar og geta fært öðrum upplifunina að sjá þessa plánetu, þá getum við séð hana á hnattrænum kvarða og kannski lært að meta þessa hluti sem eru einstakir við jörðina,“ segir Williams.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka