Vara við neyslu á brenndu brauði

Franskar kartöflur eru meðal þeirra matvæla sem innihalda hvað mest …
Franskar kartöflur eru meðal þeirra matvæla sem innihalda hvað mest af efninu akrýlamíð. mbl.is/Brynjar Gauti

Breska matvælaeftirlitið (The Food Standards Agency – FSA) varar fólk við neyslu á efninu akrýlamíð sem verður til þegar mjölvarík matvæli eru ristuð, steikt eða grilluð of lengi á háum hita. Mjölvarík eða kolvetnarík matvæli eru til dæmis brauð, kartöflur og annað rótargrænmeti.

Samkvæmt niðurstöðum FSA hefur akrýlamíð skaðleg áhrif á erfðaefni dýra og getur það því valdið krabbameini. Þá getur efnið haft áhrif á tauga- og æxlunarkerfi dýra.

Á vef BBC kemur þó fram að samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsrannsóknastofnun Bretlands (Cancer Research UK) sé ekki búið að sanna að tengslin eigi við um manneskjur.

FSA mælir engu að síður með því að fólk fylgi leiðbeiningum til hins ýtrasta þegar það eldar mjölvarík matvæli. Liturinn ætti að vera nær gulum eða gulllitum en brúnum. Þá ættu allir að borða ráðlagðan dagskammt af grænmeti og ávöxtum, auk mjölvaríkra matvæla.

FSA mælist einnig til þess að kartöflur og nípur séu ekki geymdar í ísskáp en sykurmagn í grænmeti eykst við lágt hitastig. Aukið sykurmagn gerir það svo að verkum að meira akrýlamíð getur myndast við eldun.

Eftir því sem brauðið er meira ristað verður til meira …
Eftir því sem brauðið er meira ristað verður til meira af efninu akrýlamíð. mbl.is/Golli

Gyllt og gulleitt er betra en brúnt

Akrýlamíð finnst í mörgum matvælum og er náttúrulegt aukaafurð í matseld. Mest er af efninu í mjölvaríkum matvælum sem hafa verið elduð á yfir 120°C hita, til dæmis í kartöfluflögum, brauði, morgunkorni, kexi, kökum og kaffi.

Þá getur efnið orðið til við eldun þegar mjölvarík matvæli eru bökuð, ristuð, grilluð eða steikt á háum hita. Því dekkri á litinn sem matvaran verður, því meira akrýlamíð verður til.

Á vefsíðu Matvælastofnunar má finna frekari upplýsingar um akrýlamíð.

Ekki endilega góð ráð

Haft er eftir David Spiegelhalter, prófessor í skilningi almennings á áhættum, við Cambridge háskólann, að ráð FSA séu ekki endilega við hæfi.

„Jafnvel þeir sem neyta hvað mest af akrýlíði þyrftu að neyta 160 sinnum meira magns til að ná því magni sem orsakar æxli í músum.“

Spiegelhalter bendir á að niðurstöður FSA gefi hvorki til kynna hversu miklu tjóni efnið valdi í dag né segi til um hver ávinningur fólks væri ef það fylgdi ráðleggingum stofnunarinnar.

Tengingin enn óljós

Heilsuupplýsingafulltrúi Krabbameinsrannsóknastofnunar Bretlands, Emma Shields, segir að erfitt sé að segja til um hvernig tengslin milli neyslu á akrýlamíði og krabbameini koma að manneskjum en hún staðfestir þó að einhver tenging sé þar á milli.

„Fólk getur minnkað neysluna með því að fylgja venjulegu og hollu mataræði. Það felur meðal annars í sér að borða minna af hitaeiningaríkum matvælum á borð við franskar kartöflur, kartöfluflögur og kex, en þaðan kemur mest af akrýlamíði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert