Vélmenni sendast með vörurnar

Það rúllar um á sex hjólum, litla vélmennið sem sprotafyrirtækið Starship Technologies mun nota næstu vikurnar til að koma margvíslegum varningi heim að dyrum neytenda í Washington. Um tilraunaverkefni er að ræða á sviði vöruflutninga með vélmennum. Pakkar og matvara margs konar verður meðal þeirra verkefna sem vélmennin munu sinna. Sambærileg tilraun verður einnig gerð í Redwood í Kaliforníu.

Sprotafyrirtækið er í eigu tveggja manna, Ahti Heinla og Janus Friis. Þeir eru ekki nýgræðingar í viðskiptaheiminum því þeir voru meðal stofnenda Skype. Tilraunir með vélmenni Starship eru þegar hafnar í nokkrum borgum Evrópu.

Markmiðið er að hægt sé að senda varning til kaupenda, sem eru í innan við 3 kílómetra fjarlægð frá vöruhúsinu, innan við 30 mínútum eftir að lögð er inn pöntun. Flutningsgjöldin eru lág og nota vélmennin gangstéttir við götur til að komast leiðar sinnar. Þau láta svo kaupandann vita þegar varan er komin upp að dyrum í gegnum app.

„Við erum að reyna að leysa raunveruleg félagsleg og efnahagsleg vandamál,“ segir Henry Harris-Burland, talsmaður Starship. „Þetta verkefni mun fækka fólks- og flutningabílum á vegunum. Við getum einnig veitt öldruðum heimsendingarþjónustu sem og fötluðum sem eiga erfiðara en aðrir með að komast um.“

Skrifstofur fyrirtækisins eru í London en hönnunarvinnan hefur m.a. farið fram í Eistlandi. Um 90 starfsmenn vinna nú hjá Starship. Nokkrir sterkir fjárfestar hafa komið að verkefninu nýverið, m.a. Daimler AG.

Vélmennin eru ekkert sérstaklega hraðskreið, þau fara á um 6 kílómetra hraða á klukkustund. Harris-Burland segir að engu að síður séu þau vænlegri kostur til vörusendinga en drónar en fyrirtæki á borð við Amazon eru nú að prófa slík tæki við flutninga.

Vélmennin eru mun ódýrari í framleiðslu en drónarnir og þá þarf að öllum líkindum færri reglugerðarbreytingar til að nota þau.

Harris-Burland segir að vissulega geti drónar komið sér betur á afskekktari svæðum en vélmennin eru hönnuð til að þjónusta íbúa borga og bæja. „Við lítum ekki svo á að þau séu í samkeppni við drónana,“ segir Harris-Burland.

Starship-vélmennin líkjast einna  mest hátæknikæliboxum. Þau geta flutt allt að níu kíló í einu, eða um 3-4 innkaupapoka. Ekki er hægt að kæla vörur eða halda þeim heitum í vélmenninu þar sem öll áhersla er lögð á að koma vörunum til skila á nokkrum mínútum.

Þá getur vélmennið ekki skilið vörurnar eftir við hús kaupandans. Taka verður á móti þeim.

Kortleggja gangstéttirnar

Í tilraununum næstu vikur munu vélmenni Starship flytja vörur sem pantaðar eru í gegnum Postmates og DoorDash. Fólk getur m.a. fengið heimsendar með vélmennum pítsur, tannkrem, mjólk eða egg svo dæmi séu tekin.

En hvernig ratar vélmennið í frumskógi umferðar í stórborg? Á hverju þeirra eru níu myndavélar sem notaðar eru til að kortleggja leiðina og forðast árekstra við fólk og gæludýr sem kunna að verða á vegi þeirra.

Kortlagning gangstétta hefur því verið stór þáttur í undirbúningi tilraunarinnar. „Það hafa mörg fyrirtæki kortlagt vegi en enginn hefur kortlagt gangstéttirnar,“ segir talsmaður Starship. Hann segir vélmennin ratvís. En hins vegar muni starfsmenn engu að síður fylgjast með ferðum þeirra.

Tilraunir í Evrópu sýna að vélmennin eru góð í sínu starfi. Það hafa ekki komið upp vandamál tengd skemmdarverkum á þeim eða þjófnaði.

Lok á hirslum þeirra eru læst þar til kúnninn opnar þær með snjallsíma sínum. Ef einhver reynir að stela þeim fer viðvörunarbjalla í gang. Reyni einhver að stela þeim er hægt að rekja ferðir þeirra „mjög nákvæmlega“ eins og talsmaðurinn orðar það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert