„Aldrei fundið neitt þessu líkt áður“

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. mbl.is/Golli

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir að uppgötvun sólkerfis með sjö reikistjörnum sé áhugaverð. „Þetta er með skemmtilegustu fjarreikistjörnu-uppgötvunum síðustu ára,“ segir hann.

„Ástæðan fyrir því að þetta er svona spennandi fundur er kannski fyrst og fremst að þetta er frekar einstakt sólkerfi. Við höfum aldrei fundið neitt þessu líkt áður. Svo er þetta líka mjög nálægt okkur á stjarnfræðilegan mælikvarða, sem þýðir að við getum beitt öllum stærstu sjónaukum heimsins, bæði í nútíma og í framtíðinni, til þess að rannsaka þetta frekar ítarlega,“ greinir Sævar Helgi frá.

Teikning sem sýnir stærðarhlutföll reikistjarnanna.
Teikning sem sýnir stærðarhlutföll reikistjarnanna. AFP

Hann segir að ekkert sé vitað um möguleikann á því að líf finnist á reikistjörnunum. „Það er eitthvað sem bíður framtíðarinnar en ég veit að Hubble-sjónaukinn hefur verið notaður til að reyna að finna lofthjúp í kringum þessar reikistjörnur.“

Hann nefnir að sólkerfið sé mjög áhugavert að því leyti að allar reikistjörnurnar séu mjög nálægt stjörnunni Trappist-1. „Trappist-1 er rauður dvergur en það eru algengustu stjörnurnar í vetrarbrautinni okkar. Fyrir vikið er þessi stjarna miklu minni en sólin okkar og gefur frá sér miklu minna ljós,“ segir Sævar og bætir við að þess vegna líkist sólkerfið frekar Júpíter-kerfinu heldur en okkar.

AFP

„Reikistjörnurnar eru svo þétt og nálægt þessari sól að það tekur þær frá einum og hálfum degi upp í allt að tuttugu daga að snúast í kringum stjörnuna sína. Árið hjá þeim er því einn og hálfur dagur upp í kannski 20 daga, samanborið við 365 daga hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert