Fagnað við komuna í Alþjóðlegu geimstöðina

Falcon 9 tekur af stað í gærkvöldi.
Falcon 9 tekur af stað í gærkvöldi. AFP

Geimhylkið Endeavour með geimfarana Bob Behnken og Doug Hurley innanborðs hefur læst sig við Alþjóðlegu geimstöðina. Ferðalagið tók um 19 klukkustundir en geimstöðin er í um 400 kílómetra hæð yfir jörðu.

Samlæsingin gekk vel fyrir sig en geimhylkið Endeavour, sem er af tegundinni Crew Dragon,kom á áfangastað um 15 mínútum á undan áætlun. Geimfararnir tóku sjálfir stjórnina á hylkinu um tíma til að mjaka því á réttan stað áður en tölvan tók við stjórntaumunum og sá um að hylkið læsti sig við geimstöðina.

Fyrir eru þrír í geimnum, Chris Cassidy, Anatoly Ivanishin og Ivan Vagner. Þeir kappar hafa allir dvalið í alþjóðlegu geimstöðinni í 52 daga og verða því eflaust fegnir félagsskapnum.

Uppfært klukkan 17:09:

Stjórnstöð Bandarísku geimferðastofnunarinnar í Houston, NASA, sendi geimförunum heillaóskir við komuna í stöðina. „Þið hafið lokið sögulegri ferð í Alþjóðlegu heimstöðina og hafið nýjan kafla í geimferðasögu mannkyns.“  

Behnken og Hurley þurftu að bíða í tvær klukkustundir áður en þeim var óhætt að færa sig yfir í geimstöðina. Þangað eru þeir nú komnir heilu og höldnu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert