Veiruafbrigði „stormur í vatnsglasi“

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á LSH.
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á LSH.

Engin gögn eru til staðar sem þykja benda til þess að nýtt veiruafbrigði sem Matt Hancock innanríkisráðherra Bretlands talaði um á breska þinginu sé meira smitandi eða hættulegra en önnur. Heilbrigðismál falla undir innanríkisráðuneytið. 

„Ég veit ekki til þess að sýnt hafi verið fram á meiri hættu af þessu veiruafbrigði en öðrum,“ segir Magnús. 

Hann segir að svona hlutir séu gjarnan rannsakaðir síðar og þannig megi fá fyllri mynd af hinum ýmsu veiruafbrigðum og allar vangaveltur séu ótímabærar. Magnús segist ekki hafa orðið var við að heilbrigðisstarfsfólk hafi lýst áhyggjum ef þessu arfbrigði umfram önnur. 

„Ég held að þetta sé stormur í vatnsglasi. Þetta eru allt saman vangaveltur á þessu stigi. Það þarf meiri tíma og yfirlegu til að segja eitthvað naglfast um þetta,“ segir Magnús. 

Tugþúsundir veiruafbrigða

Eins og fram kom í samtali Magnúsar við mbl.is eru tugþúsundir veiruafbrigða af Covid-19 um allan heim. Að sögn hans getur verið einhver munur á því hvernig afbrigðin dreifast en ekkert bendi til þess að bóluefni muni ekki vinna á öllum afbrigðum veirunnar. 

Hann segir að spurningar um nýtt afbrigði komi reglulega upp. „Dreifing smits er svo flókin og háð margháttuðu samspili. Því er ekki hægt að draga þá ályktun að þetta sé meira smitandi afbrigði,“ segir Magnús.  

„Það getur átt sér atferlisfræðilegar skýringar ef það er mikið af smitum á einhverju svæði. Fólk hefur safnast saman eða annað. Því er mjög snúið að slá því föstu að þú sért með afbrigði sem er meira smitandi en annað,“ segir Magnús. 

Í það minnsta þurfi að safna meiri gögnum yfir lengri tíma til að geta slegið slíku föstu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert