Á sama tíma um land allt

Kosið verður með gamla laginu um land allt.
Kosið verður með gamla laginu um land allt. mbl.is / Eyþór

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi Icesave-laganna hefst á sama tíma um land allt. Hún verður auglýst eftir að kjörseðlar koma úr prentun.

Notaðir verða prentaðir kjörseðlar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, ekki auðir eins og við aðrar kosningar. Kjörseðlarnir verða prentaðir í öðrum lit.  

Ekki hefur verið ákveðið hvenær efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Dómsmálaráðherra er með lögunum sem samþykkt voru í kvöld falið að ákveða dagsetningu atkvæðagreiðslunnar að höfðu samráði við landskjörstjórn. Hún skal fara fram svo fljótt sem auðið er en þó ekki síðar en laugardaginn 6. mars.

Dómsmálaráðherra skal auglýsa kjördag eigi síðar en þrem vikum fyrir atkvæðagreiðsluna. Viku fyrir kjördag skal birta spurninguna sem lögð verður fyrir kjósendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina