Orðalagsbreytingar á frumvarpi

Alþingi ræðir frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin.
Alþingi ræðir frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin. mbl.is / Heiddi

Allsherjarnefnd Alþingis gerir tillögu um breytingar á orðalagi frumvarps til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð vegna Icesave. Frumvarpið er nú til annarrar umræðu á Alþingi og er samkomulag um að afgreiða það í kvöld.

Nefndin leggur samhljóða til á kjörseðli komi eftirfarandi fram: „Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“

Á kjörseðli skulu gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. „Já, þau eiga að halda gildi“ og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“.

Ekki liggur fyrir hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram en helst er rætt um þrjá laugardaga, 20. eða 27. febrúar eða 6. mars. Dómsmálaráðherra ákveður dagsetninguna.

Á fundi nefndarinnar var rætt um mikilvægi hlutlausrar kynningar á þjóðaratkvæðagreiðslunni og kemur fram í nefndarálitinu að dómsmálaráðuneytið hefur þegar látið taka frá tvö lén sem unnt væri að nota í því skyni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið eftir ríkisstjórnarfund síðdegis í dag að samkomulag væri um afgreiðslu frumvarpsins á þessum degi.

Hún muni leggja til að fundum Alþingis verði að því búnu frestað til 29. janúar. Dagarnir 26. til 28. janúar verði þá notaðir til að halda fundi í nefndum, ef þurfa þykir.

mbl.is

Bloggað um fréttina