Fréttaskýring: Enginn verður múlbundinn

Alþingi leggur áherslu á útgáfu hlutlauss kynningarefnis og mun dómsmálaráðuneytið hafa milligöngu þar um. Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra bendir á að ráðuneytið hafi óskaplega skamman tíma því utankjörfundaratkvæðagreiðsla muni að öllum líkindum hefjast 25. janúar.

Dómsmálaráðuneytið lagði raunar til að stjórnvöld létu þjóðfélagsumræðuna hafa sinn gang og ekki yrði ráðist í gerð kynningarefnis en allsherjarnefnd setti fram hugmynd um útgáfu kynningarefnis sem unnið yrði af óháðum aðila.

Eins og í Hafnarfirði

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, gerir ráð fyrir að aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave verði með svipuðu sniði og þegar Hafnarfjarðarbær efndi til íbúakosningar um stækkun álversins í Straumsvík. „Þá greiddi bærinn óháðum aðila úti í bæ fyrir að útbúa kynningarefni fyrir kosninguna,“ segir Steinunn en að tillögu nefndarinnar mun dómsmálaráðuneytið hafa milligöngu um gerð kynningarefnis.

Aðspurð hvort setja ætti einhvers konar reglur um kynningar og auglýsingar af hálfu einkaaðila fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna segir Steinunn slíkt fráleitt enda yrði þá um skerðingu tjáningarfrelsis að ræða. „Það er eðli lýðræðisins að menn reyni að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Á sínum tíma urðu til fylkingar í Hafnarfirði, sumir stjórnmálamenn blönduðu sér í umræðuna og aðrir ekki, en það er skylda stjórnvalda að koma eins hlutlausum upplýsingum á framfæri og kostur er. Ég er viss um að stjórnmálamenn, bæði sem einstaklingar og kjörnir fulltrúar einstakra félagasamtaka, munu reyna að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er ekki hægt að múlbinda kjörna fulltrúa í þessu stóra máli.“

Vanda yrði reglur

Eiríkur Tómasson lagaprófessor dregur í efa að hægt væri að setja reglur um áróður eða umræður um mál í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, „Það er ekki útilokað en mjög varhugavert.“ Telur hann að slíkt gæti stangast á við lög um tjáningarfrelsi auk þess sem ólíklegt væri að slíkar reglur myndu halda. Meiri líkur væru á að hægt yrði að setja reglur um fjárframlög til einkaaðila sem dreifðu kynningarefni í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, en vanda þyrfti sérstaklega til smíði slíkra laga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina