Byrne: Ættu Írar að neita að greiða

Reuters

Elaine Byrne, sérfræðingur í írskum stjórnmálum og dálkahöfundur hjá Irish Times, veltir því fyrir sér hvort írska þjóðin eigi að neita því að bjarga írsku bönkunum út úr vandræðum, í pistli í Irish Times í dag. Hún vísar til ummæla John Kay í Financial Times nýverið um að Bretar eigi að skammast sín og leiðara FT í gær.

Í leiðara FT kom fram, að sögn Byrne, að með því að kastljósið beinist að því hvort Íslendingum beri að greiða beinist athyglin frá þeirri staðreynd að reglur Evrópusambandsins um starfsemi banka erlendis hafi ekki burði til þess að taka á stórum bankahrunum. Setja eigi í forgang að breyta reglunum svo bankar geti farið í þrot án þess að það þurfi að losa þá úr vandræðunum á ný.

„Þar höfum við það. Hið virðulega Financial Times segir að það eigi að leyfa bönkunum að fara í þrot. Og hvaðan kemur þessi niðurstaða skyndilega fram? Af því, samkvæmt sama leiðara Financial Times, mun reiði almennings á Íslandi leiða til þess að almenningur annars staðar muni neita að greiða opinberar skuldir sem rekja megi til mistaka annarra," skrifar Byrne.

Hún veltir fyrir sér hvort almenningur í öðrum ríkjum muni fara sömu leið og Íslendingar í stað þess að láta það fara í taugarnar á sér að þurfa að bjarga bönkunum.

Byrne vísar til ummæla Henry Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í New York Times nýverið þar sem hann sagði að stjórnvöld þyrftu á skýrari reglum að halda til þess að  dæla fjármunum í fjármálastofnanir sem væru komnar að fótum fram. Ekki sé hægt að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að skattfé almennings fari í að bjarga bönkunum.

Hún tekur erfiða fjárhagsstöðu írskra banka fyrir og veltir því fyrir sér hvort Írar eigi að feta í fótspor Íslendinga og neita að greiða. Hverjar eru afleiðingarnar ef rödd almennings verður háværari heldur en efnahags ríkis?

Sjá dálk Byrne í heild
mbl.is

Bloggað um fréttina