Magnaðar geddur og margar í yfirstærð

Tommy O´Dea með draumafiskinn. 109 sentímetra geddu sem hann veiddi …
Tommy O´Dea með draumafiskinn. 109 sentímetra geddu sem hann veiddi fyrr í mánuðinum. Leiðsögumaðurinn hans var Paul Bourke frá irishfishingtours.com Ljósmynd/Paul Bourke

Þeir sem fylgjast með veiðimönnum frá öðrum löndum á samfélagsmiðlum hafa upp á síðkastið séð mikið af myndum af risavöxnum geddum. Geddan er ránfiskur og getur hún orðið ógnarstór. Á Írlandi er núna besti tíminn til að ná þessum allra stærstu. Gedda yfir hundrað sentímetrar að lengd vekur jafnan athygli.

Síðustu vikur hafa einmitt þó nokkrar veiðst í bæði ám og vötnum á eyjunni grænu. Sporðaköst sendu fyrirspurn á Fishing in Ireland sem heldur úti rafrænu vikulegu fréttabréfi um stangveiði þar í landi. 

Svörin bárust fljótt og vel og það sem fyrst vakti áhuga er að Írar halda úti síðu þar sem hægt er að sjá metfiska í öllum tegundum, bæði í vötnum og ám. Þeir veita líka verðlaun eða merki til þeirra veiðimanna sem veiða fiska sem ná ákveðnu viðmiði. Þessi viðmið eru tilgreind í hverri tegund og afar forvitnilegt að skoða hinar ýmsu tegundir. Í laxinum er til að mynda miðað við 20 pund, eða libs (ensk pund) í þeirra tilviki. En stærsti lax sem veiðst hefur á stöng á Írlandi vigtaði 57 libs eða 25,9 kíló. Hann veiddist í ánni Suir árið 1874. Það yrði samkvæmt íslenskum pundum, tæp 52 pund. Enska pundið er 0,45 kíló.

En aftur að geddunum. Viðmiðið þar til að fiskur sé flokkaður sem verðlaunafiskur eða merkisfiskur er í á 20 pund eða 9,1 kíló. Í vötnum er ráin sett enn hærra eða 30 pund sem leggur sig á 13,6 kíló.

Stærsta gedda veidd á stöng í á, sem vitað er um á Írlandi, mældist 42 pund eða um 19 kíló og veiddist í ánni Barrow árið 1964. Í vatni er það fiskur sem var tæp 43 pund, 19,4 kíló og veiddist í vatninu White Lough árið 2005.

Mun stærri geddur hafa veiðst í net og er vitað um fiska sem hafa mælst yfir 50 pund.

Peter Sheridan hefur árum saman leitað að þeim stóra. Snemma …
Peter Sheridan hefur árum saman leitað að þeim stóra. Snemma í febrúar setti hann í og landaði þessari 31 punda geddu. Hann hafði í áratugi reynt að ná 30 punda geddu í á og loksins gekk það. Merkisfiskur og mun skila honum merki til staðfestingar. Ljósmynd/fishinginireland.info

Myles Kelly frá Fishing in Ireland svaraði fyrirspurn Sporðakasta. Hann sagði að margir veiðimenn á Írlandi sem stunda gedduveiði horfi til hundrað sentímetranna þegar kemur að því markmiði að ná þeim stóra.

Myles segir að gedda sé mjög útbreidd á Írlandi og hana megi finna í flestum ám og vötnum. Þannig sé hún hluti af lífríkinu í öllum stærstu ánum og nefndi hann, Shannon, Erne, Liffey og Barrow. „Þær má líka finna í öllum bestu veiðivötnunum okkar. Corrib og Mask og svo auðvitað í vötnunum sem tengjast stóru ánum,“ upplýsti Myles.

Allar veiðiaðferðir eru notaðar við veiði á geddu en fluguveiði er að verða sífellt vinsælli þegar kemur að þessum magnaða ránfiski.

Hann segir geddu bragðgóða. „Við mælum hins vegar með veiða og sleppa. En allir geta tekið fisk í matinn og er miðað við eina geddu á stöng á dag undir fimmtíu sentímetrum.

Það mega allir veiða geddu eða silung í vötnum á Írlandi og á flestum stöðum kostar það ekki neitt. Það er bara í laxveiðinni sem kaupa þarf veiðileyfi. „Það er þó ekki algilt og á sumum stöðum þarf að kaupa dagpassa sem kostar tuttugu evrur eða árskort sem er þá 45 evrur.“ Tuttugu evrur eru tæplega þrjú þúsund krónur og 45 evrur slaga hátt í sjö þúsund krónur.

En Myles heldur áfram. „Ef þú kemur til Írlands til að veiða geddu eða silung þá myndi ég alltaf mæla með að þú tækir leiðsögumann. Það er um svo marga staði að ræða og þeir þekkja þetta svo vel, bæði hvað varðar staði og aðstæður. Flestir leiðsögumennirnir okkar eru frá öðrum löndum en Írlandi. Frá Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi og Ítalíu. Allt veiðimenn sem féllu fyrir veiðinni hér og aðstæðum. Íslendingar sem vilja koma ættu að hafa það í huga að kannski vilja þeir ekki snúa aftur.“ Myles hlær góðlátlega.

En af hverju er ekki gedda á Íslandi?

Við leituðum til Guðna Guðbergssonar sviðstjóra hjá Hafrannsóknastofnun með þessa spurningu. „Gedda er ferskvatnsfiskur og getur ekki lifað í sjó. Allar tegundir í ferskvatni þurfa eða geta lifað í sjó sem hluta af sínum lífsferli. Þær hafa komið hingað af sjálfsdáðum syndandi líkt og hnúðlaxinn er að gera þessi árin.“ Guðni bætti við að innflutningur á lifandi fiskum og framandi tegundum til Íslands er ólöglegur.

Hann telur allar líkur á að gedda geti lifað við aðstæður á Íslandi, enda er hún útbreiddur fiskur á norðlægum slóðum.

En hefur hann heyrt af hugmyndum um að flytja inn geddu til Íslands?

„Ég hef fengið þær spurningar nokkrum sinnum. Mitt svar hefur verið, til hvers? Gedda étur aðra fiska og er í samkeppni við veiðimenn og því auka hlekkur í lífkeðjunni. Gedda er ekki góður matfiskur. Mikið af beinum og helst borðuð sem fiskibollur.“

Guðni bendir á að hún sé mjög lífseig og séu lengi að drepast eftir löndun. Þær hafi mjög beittar tennur sem geti læst sig í hendur og fætur og valdið miklum skaða. Hann bætir við; „Ég sé engan ávinning af geddum. Það hversu fáar tegundir hér er okkar sérstaða og ber að vernda líffræðilegan fjölbreytileika („fábreytileika“). Lifandi fiskar geta borið sjúkdóma og sníkjudýr og mörg dæmi um slíkt frá fyrri árum. Þess vegna eru reglur strangar.“

Fyrir áhugasama um að komast í geddu– eða silungsveiði á Írlandi er þetta síðan til að skoða, https://fishinginireland.info/pike/

Og fyrir þá sem vilja skoða stærstu fiska sem veiðst hafa á Írlandi í ólíkum tegundum er slóðin https://specimenfish.ie

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert