Inga Hrefna Búadóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl 1928. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 22. desember 2009. Foreldrar Ingu voru Búi Ásgeirsson póstur og bóndi á Stað í Hrútafirði, síðar verslunarmaður í Borganesi og í Reykjavík, f. á Hlaðhömrum í Strandasýslu 23.7. 1872, d. 13.6. 1949, og Ingibjörg Teitsdóttir húsfreyja í Borgarnesi og í Reykjavík, f. á Ferjubakka í Borgarfirði 12.4. 1886, d. 26.1. 1974. Systkini Ingu eru Alfreð verkstjóri, f. 30.7. 1909, d. 29.11. 1995, Solveig handavinnukennari, f. 17.11. 1910, d. 14.3. 2004, Oddný Þórunn Bendtsen húsmóðir, f. 25.5. 1915, d. 27.10. 1964 og Ásgerður Búadóttir myndlistarmaður, f. 2.12. 1920. Maður Ingu er Hafsteinn Bjargmundsson, verkstjóri og stærðfræðingur, f. í Reykjavík 3.3. 1924. Foreldrar hans voru Bjargmundur Sveinsson, f. í Efri-Ey 30.8. 1883, d. 13.9. 1964, og Herdís Kristjánsdóttir, f. í Fossseli í Reykjadal 11.4. 1886, d. 14.10. 1970. Fyrrverandi eiginmaður Ingu var Einar Helgason læknir, f. í Reykjavík 13.6. 1925 d. 16.2. 1974. Þau skildu 1966. Foreldrar hans voru Helgi Þorkelsson klæðskeri, f. 16.12. 1886, d. 8.7. 1970 og Guðríður Sigurbjörnsdóttir húsfreyja, f. 6.10. 1898, d. 3.1. 1983. Börn Ingu og Einars eru: 1) Ingibjörg Eir lífeðlisfræðingur, f. 4.3. 1951, gift Birni Þrándi Björnssyni, prófessor í lífeðlisfræði við Gautarborgarháskóla. Áður gift Gunnari Ægissyni sjávarútvegsfræðingi. Börn þeirra eru Inga Hrefna og Atli. 2) Björn öldrunarlæknir, f. 11.9. 1952, kvæntur Sigurjónu Símonardóttur lögfræðingi, hún er látin. Börn þeirra eru Einar Teitur, Halldór Orri og Snædís. 3) Kjartan byggingartæknifræðingur, f. 16.5. 1956, kvæntur Kristine Mörch smitsjúkdómalækni við Haukeland Sykehus í Bergen. Synir þeirra eru Jóhannes og Björn. Áður kvæntur Ernu Agnarsdóttur sjúkraliða, dóttir þeirra er Sigrún. 4) Hrefna ljósmóðir, f. 3.11. 1958. Giftist Heiðari Jónssyni stýrimanni. Þau skildu. Börn þeirra eru Helga Maria, Gunnar Björn og Herdís Birna. Inga átti sex langömmubörn. Inga var yngst systkina sinna og sú eina sem fæddist í Reykjavík, en ekki í Borgarnesi, eins og hin systkinin. Hún ólst upp í Grjótagötu og síðar í Þingholtsstæti í Reykjavík. Árið 1950 lauk hún námi í Hjúkrunarskóla Íslands. Hún bjó með eiginmanni sínum og börnum, fyrst á Laufásvegi, síðar í Flatey á Breiðafirði, á Reykhólum í Barðarstrandasýslu og í Greifswald í Austur-Þýskalandi, þar sem maður hennar var við nám. Þau fluttu aftur til Íslands 1962 og bjuggu þá í Sörlaskjóli. 1966 skyldu þau Inga og Einar og hóf hún þá aftur hjúkrunarstörf. Á starfsævi sinni vann hún á lyflæknisdeild, göngudeild og lýtalækningardeild á Landspítala, í Hjartavernd í fjölda ára, starfaði á öldrunarlækningardeildinni í Hátúni og að lokum á öldrunarlækningasviði á Landakotsspítala fram til sjötíu ára aldurs. Eftir skilnað þeirra Einars, flutti Inga í Lynghaga 14, þar sem að hún ól upp börnin sín og bjó það sem eftir var ævinnar, síðustu 20 árin með Hafsteini. Útför Ingu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. janúar kl 13.

Góð vinkona mín Inga Búadóttir hefur nú kvatt. Fyrir alllöngu sagði hún mér frá því að hún ætti við vanheilsu að stríða. Því mætti hún með æðruleysi og hugarró. Þannig var Inga, einlæg og æðrulaus. Leiðir okkar lágu saman innan esperantohreyfingarinnar þar sem Inga var ljúfur liðsmaður. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Ingu og eignast vináttu hennar. Hún var góð, hjartahlý kona. Nærvera hennar var hlý. Mér er minnisstætt að fyrstu kynni okkar voru þau að við sátum fyrir tilviljun saman í rútubíl í útsýnisferð um Þingvelli. Það var gott að njóta landsins okkar í nærveru Ingu. Á kveðjustund er sorg í hjarta sem þó víkur fyrir þakklæti fyrir að hafa átt vináttu Ingu Búadóttur. Ég votta Hafsteini og allri fjölskyldunni samúð. Blessuð sé minning Ingu Búadóttur.


Þórey Kolbeins

Það var ekki lítil heppni að lenda í einskonar umsjá Ingu þegar ég kom einn míns liðs til Greifswald haustið 1961 til að kenna íslensku við hinn forna háskóla. Þau Einar Helgason læknir höfðu dvalist þar fimm ár og áttu einn vetur eftir. Mín eigin fjölskylda kom ekki fyrr en fjórum mánuðum síðar. Ósjálfrátt hafði ég búist við að hitta ráðsetta læknisfrú fremur en þessa unglegu og kátu fjögurra barna móður.

Mínir líkar eru einatt óttalegir ratar í heimilislegum efnum, og ekki bætti úr skák að í þessu landi lágu ekki auglýsingar um allar vörur eða þjónusta í öðrum hverjum glugga og þurfti oft nokkra staðkunnáttu til að leita uppi sumar einfaldar nauðsynjar. Þar kom ráðgjöf Ingu að góðu haldi. Hún byrjaði á að hjálpa mér að velja húsgögn í tóma íbúð, síðan til að benda á heppilegar matvörubúðir, enn seinna til að finna jólagjafir að senda heim. Inga var mjög ljóðelsk og listelsk og við höfðum meðal annars svipaðan músíksmekk sem stytti stundir.

Ekki var minna virði að fá að vera heimagangur þessa mánuði. Þar mátti auk annars öðlast hispurslausan skilning á viðhorfi almennings, reistan á reynslu án allra frasa. Hvernig fólk var til dæmis þreytt á því að sífellt var reynt að virkja það í uppbyggingu samfélagsins, jafnvel í hverri íbúðarblokk, í stað þess að mega bara fylgja þegjandi því sem ráðamenn ákváðu einsog menn höfðu verið vanir kynslóðum saman. Ellegar að fá útskýrða óánægju bænda útaf þeirri óráðsíu að fyrst var lendum stórjarðeigenda skipt milli smábænda og gömlu stóru fjósin rifin en lítil fjós reist í staðinn.

Eftir áratug þegar bændur voru farnir að koma svolítið undir sig fótunum, þá var allt í einu fyrirskipaður samvinnubúskapur og litlu fjósin rifin og aftur reist stór fjós, ósjaldan eftir fyrirsögn arkitekta sem ekki skildu kýr.Sama alúð og greiðvikni í leiðbeiningum ríkti eftir að þrír fjórðu hlutar fjölskyldu minnar bættust í hópinn með þarfir tveggja barna í tilbót. Burtséð frá persónulegum eiginleikum var talsvert öryggi í því fólgið að hafa samlendan lækni og hjúkrunarfræðing í kallfæri. Og þar ríkti ljúfmennskan ein. Samfundir strjáluðust eðlilega eftir að allir voru komnir heim til Íslands nokkrum árum seinna en vinskapurinn var hinn sami hvenær sem á reyndi.

Árni Björnsson

Inga hrefna Búadóttir er  látin.
Eg heyrði þessa harmaregn daginn eftir í útvarpi. Ég var svo óviðbúin og vissi ekki að svona væri komið. Hún lést á Líknardeildinni Kópavogi 22. desember. Satt að segja var eg farin að bíða og hlakka til árlegra hringingu frá henni. Fyrir margt löngu tókum við upp þennan sið. Í stað jólakorta að eiga saman langa stund í símanum og var það okkar beggja annál ársins.
Í þetta sinn kom ekkert símtal.
Við Inga kynntumst  þegar þáverandi einmenn okkar luku Læknaprófi
Það kvöld er minnistætt. Við sátum næturlangt til að fagna áfanganum
Þá var framtíðin björt.
Þessi stúlka sem eg sá þá í fyrsta skipti var svo frábrugðin öllum öðrum Hún var gáfuð og glæsileg og fór með ljóðfyrir okkur  heilu kvæðin bókarlaust með sinni fallegu rödd. Ég var heilluð af henni og óskaði að þetta kvöld tæi aldrei enda. En allt tekur enda sem og hjónabönd okkar beggja .Ég sá hana ekki í mörg ár seinna vissi eg að þau höfðu farið til Þýskalands til frekari náms Þar vann hún við hjúkrun sem hún gerði til starfsloka.
Við hittumst svo  aftur á aAlmennu Göngudeildinni á L.sp. Þar störfuðum við saman í mörg ár og tengumst sterkum vinarböndum.
Sú vinátta entist ævina út þá vorum við báðar orðnar einar  með börnin okkar og áttum svo margt sameiginlegt. Ég minnist  allra ferðana okkar með Ferðafél. Íslands. Má segja að um næstum hverja helgi fórum við um landið okkar fagra. Við komumst á Snæfellsjökul um hvítasunnu í yndislegu veðri. Það var ekki sjálfgefið þá. En upp á Þúfur komst  hópurinn og skall þá á hin kaldasta ísþoka. Ferðin niður var svo erfið því þokan var svo dimm. Einum páskum  eyddum við  í Þórsmörk og voru þá yngstu börnin okkar með. Lengi væri hægt að rifja upp ógleymanlega daga.
Inga Hrefna var eistök. Falleg, gáfuð og góð. Einu sinni heyrði ég einn lækni sem við unnum með segja við hana: Inga mín er ekki erfitt  að vera með hjarta úr gulli"?
Elsku góða vinkonan míní gleði og sorg. Sæll er sá sem hefur átt þig að vini. Guð blessi minningu þína. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til barnanna þinna og allra ástvina.

Sigrún.