Jóna Guðrún Ísaksdóttir fæddist á Hofteigi 16 í Reykjavík þann 13. maí 1958. Hún lést á deild 11E Landspítalanum Hringbraut síðastliðna Þorláksmessu. Foreldrar hennar voru Ísak Jón Sigurðsson járnsmiður, f. 11. janúar 1928 Ísafirði, d. 22. maí 2007, og Greta N. Ágústsdóttir húsmóðir og starfsmaður á Fálkaborg og Grensásdeild, f. 29. desember 1931 í Reykjavík, d. 15. júlí 2004. Jóna var næstelst í hópi fjögurra systkina en hin eru: Benjamín Ágúst, f. 1. nóvember 1955, Birna, f. 28. júní 1960, Vera Björk, f. 13. desember 1968. Jóna giftist þann 16. júní 1979 Óskari Jóhanni Óskarssyni nú kerfisstjóra hjá Arion banka, f. 26. júní 1954. Foreldrar hans eru (Guðmundur) Óskar Jóhannsson fyrrum kaupmaður og starfsmaður hjá Borgarverkfræðingi, f. 25. maí 1928 Bolungarvík og Elsa Friðriksdóttir, húsmóðir og fyrrum starfsmaður hjá Borgarverkfræðingi, f. 23. júlí 1929 Borgarnesi. Börn Jónu og Óskars eru: 1) Greta Ósk, bókmenntafræðingur, f. 28. desember 1979. Börn hennar eru: a) Ragnar Andri Gretuson, f. 27. júní 2005, d. 28. júní 2005 og b) Friðrik Anton Markús Gretuson, f. 27. júní 2005. 2) Jóhann Fannar, f. 11. maí 1982. 3) Lísa Hlín, f. 26. maí 1987. Jóna bjó fyrstu æviár sín á Baldurshaga við Rauðavatn en flutti 10 ára gömul með fjölskyldu sinni á Hjaltabakka 12. Jóna lagði stund á fimleika með Ármanni og hóf ung störf m.a. við fiskverkun og á fjallahóteli í Tromsø í Noregi. Jóna vann hjá Loftleiðum þar sem hún kynntist verðandi manni sínum Óskari. Þau hófu sambúð sína að Austurbrún 27 en bjuggu eftir það í Breiðholti. Jóna lagði mikið upp úr móðurhlutverkinu og heimilishaldi en vann einnig ýmis hlutastörf m.a. hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ásamt því að stunda nám við kvöldskóla Fjölbrautaskólans í Breiðholti þaðan sem hún útskrifaðist árið 1994. Jóna starfaði til skamms tíma hjá Morgunblaðinu en varði stærstum hluta starfsævi sinnar, rúmum fimmtán árum, hjá Lánasýslu ríkisins, sem nú er sameinuð Seðlabanka Íslands. Jóna hélt hlýtt og kærleiksríkt heimili með Óskari þar sem fjölskylda, vinir, nágrannar og vinir barna þeirra voru ávallt velkomnir og vel tekið. Leiðir Jónu og Óskars skildu árið 2001 og eftir það bjó Jóna með yngstu dóttur sinni til skamms tíma í Kópavogi en síðustu árin að Hrísateigi 16 í Laugarneshverfi. Jóna helgaði líf sitt að mestu börnum sínum og barnabörnum. Jóna verður jarðsungin frá Laugarneskirkju í dag, þriðjudaginn 5. janúar, og hefst athöfnin kl. 11. Hún verður jarðsett við hlið barnabarns síns í Gufunesi.

Elsku Jóna.

Þú varst: Hlý, góð, skemmtileg, óeigingjörn, hjálpfús, hrókur alls fagnaðar. Þú hafðir til að bera ótrúlegan kraft og æðruleysi þessi síðustu ár þegar erfiðleikarnir dundu yfir þig og fjölskyldu þína. Ég þakka fyrir allar stundir bæði í vinnu og skemmtun sem við áttum saman. Það voru vissulega forréttindi að fá að kynnast konu eins og þér.

Ég bið fyrir samúðarkveðjur til allrar fjölskyldu þinnar.

Þín vinkona,

Ingibjörg Pálsdóttir

Við kynntumst Jónu Guðrúnu fyrst er hún hóf störf hjá Lánasýslu ríkisins árið 1995. Hún var ráðin sem ritari, en var fljótlega farin að sinna ýmsum öðrum krefjandi verkefnum sem takast þurfti á við á fámennum vinnustað. Allt fórst henni vel úr hendi.

Yfirmenn Lánasýslunnar hrósuðu happi yfir þessum dugmikla starfskrafti sem rekið hafði á fjörur þeirra, og samstarfsfólkið naut þess að vinna með skemmtilegri konu sem var iðandi af lífsgleði og vék sér hvorki undan vinnuálagi, né þátttöku í því sem tekist var á hendur utan vinnunnar þar sem Jóna var hrókur alls fagnaðar.

Við vissum að Jóna þurfti æði oft að hafa fyrir lífinu. En það var aldrei kvörtunartónn í henni. Hún var fyrst og fremst þakklát og naut þess að vera til. Hún var stolt af börnum sínum og sagði okkur frá vegferð þeirra með hlýju og glettni. Hún leit á andstreymi sem verkefni. Ungum dóttursyni lá svo mikið á að komast í heiminn að hann þurfti stuðning við fyrstu skrefin í mannheimi. Þar naut hann takmarkalausrar umhyggju og dugnaðar ömmu sinnar. Jóna hafði gaman að segja okkur frá framförum og nýjustu afrekum drengsins. Hún var forsjóninni afar þakklát fyrir þennan sólargeisla sinn.

Jóna veiktist fyrir um þremur árum af illvígum sjúkdómi. Eftir aðgerð virtist hún hafa náð nokkrum bata. Jóna vann sín verk áfram af æðruleysi og öryggi og stutt í hlýja brosið, og því var erfitt  fyrir samstarfsfólk hennar að átta sig á alvarleika veikindanna.

Þegar sjúkdómurinn hafði gert hana óvinnufæra mynduðu systkin hennar, börn og vinir öflugan hóp umönnunar og viðveru. Þannig naut Jóna sjálf af hendi sinna nánustu þeirrar umhyggju sem hún hafði alla tíð veitt öðrum svo ríkulega.

Á Þorláksmessu lauk hetjulegri baráttu hennar.

Við sendum börnum hennar, systkinum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.


Björgvin, Hafsteinn, Hrafnhildur, Sigurður, Viðar.

Nú eru komin 18 ár síðan ég sá þig fyrst Gunna mín, þá vorum við báðar forvitnar og óöruggar vegna nýrra fjölskyldutengsla. Fljótlega fékk ég á þér matarást og sannreyndi það sem aðrir höfðu sagt mér. En nú er komið að því að kveðja og það er aldrei auðvelt. Hugurinn fyllist af allskyns minningum. Þykka hárið þitt og brosið, uppskriftirnar þínar og hvernig mér fannst þú taka á málum með ró, en lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þér. Ég sé þig fyrir mér á spjalli við unga fólið í fjölskyldunni og áhugann sem þú sýndir þeim alltaf og því sem þau tóku sér fyrir hendur, börnin mín fóru ekki varhluta af því.

Ég mun minnast þín sem fallegrar sterkrar konu sem tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og kunni að þiggja hjálp þeirra sem þótti vænt um hana.

Takk fyrir kynnin kæra mágkona og skilaðu kveðju til þeirra sem bíða þín hinu megin. Helga Helgadóttir

Helga Helgadóttir

Það bar skugga á jólahátíðina þetta árið en á milli jóla og nýárs barst sú fregn að okkar ástkæra samstarfskona og vinur, Jóna Guðrún, hefði kvatt hérvistina á Þorláksmessu eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Jóna vann áður hjá Lánasýslu ríkisins og fluttist með henni til Seðlabankans haustið 2007. Verkefni Jónu voru fyrst og fremst á sviði upplýsingamála, viðhalda upplýsingaveitum um lánamál og sjá um að miðla upplýsingum til markaðsaðila og fjölmiðla.

Jóna hafði sérstaklega góða nærveru, var ávallt glaðleg en umfram allt hlýleg og einlæg. Hún var samviskusöm og fórnfús og hefði e.t.v. mátt setja sjálfa sig ofar á forgangslistann, sérstaklega eftir að veikindin tóku að ágerast. Hún lagði metnað í starf sitt og leysti það með miklum sóma.

Hér í Seðlabankanum skilur Jóna okkar eftir góðar minningar og góða vini sem margir hverjir hafa þekkt hana sem vin og samstarfsmann í á annan áratug. Hennar er sárt saknað.

Við færum börnum Jónu og hennar fjölskyldu allri, okkar dýpstu samúðarkveðjur.

F.h. samstarfsfólks á alþjóða- markaðssviði Seðlabanka Íslands,

Sigurður Sturla Pálsson.