Ólafur Benóný Guðbjartsson fæddist í Bjarmalandi í Grindavík 4. janúar 1949. Hann lést sunnudaginn 27. desember sl. Hann var sonur hjónanna Maríusar Guðbjarts Guðbjartssonar frá Selárdal í Arnarfirði, f. 23. sept. 1900, d. 23. jan. 1987 og Danheiðar Þóru Daníelsdóttur frá Garðbæ í Grindavík, f. 20. jan. 1912, d. 17. nóv. 1995. Bjuggu þau lengst af í Bjarmalandi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Systir Ólafs er Sólveig Guðbjört, f. 3. mars 1940, gift Agnari Guðmundssyni, f. 8. júní 1940 og eiga þau 5 börn. Hinn 24. maí 1969 kvæntist Ólafur Önnu Marý Kjartansdóttur, f. 1. feb. 1950 og eignuðust þau 3 börn. Þau eru: 1) Heiðbjört Þóra, f. 14. nóv. 1969, gift Páli Ólafssyni, f. 17. des. 1968. Dætur þeirra eru Alda, f. 11. nóv. 1989, Anna Dís, f. 5. júní 1992 og Harpa Lind, f. 7. feb. 1998. 2) Reynir Freyr, f. 20. feb. 1972, d. 26. apríl 1990. 3) Ómar Davíð, f. 23. apríl 1978, í sambúð með Berglindi Benónýsdóttur, f. 9. ágúst 1982, börn þeirra eru Ólafur Reynir, f. 23. feb. 2003 og Bríet María, f. 13. nóv. 2006. Eftir barnaskólagöngu lauk Ólafur gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Að loknum gagnfræðaskóla gegndi hann hinum ýmsu störfum þ.á.m. sjómennsku en lengst af vann hann þó við skrifstofustörf. Hann tók þátt í bæjarmálum, sat í bæjarstjórn og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið og einnig fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Var hann virkur félagi í Björgunarsveitinni Þorbirni til margra ára. Ólafur lagði stund á búskap með foreldrum sínum í Bjarmalandi á yngri árum. Eftir þeirra dag tók hann við búskapnum og sinnti honum til dauðadags. Útför Ólafs fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, þriðjudaginn 5. janúar, kl.14.

Mig langar til að minnast Óla í fáum orðum en hann  var kvæntur  Önnu Mary móðursystur minni. Alltaf var gaman að heimskækja þau  hjónin sem krakki og minnist ég þess helst hvað Óli gat verið  stríðinn og alltaf stutt í hláturinn hjá honum.

Ég  dvaldi hjá þeim hjónum  í Grindavík tvö sumur sem unglingur  þar sem ég vann í  fiski. Þá kynntist ég Óla betur og sá fljótt  að þar fór rólyndis maður sem  vildi öllum vel. Góðlátlega stríðinn var hann, með sinn hlátur sem var ekki hávær en áberandi sætur. Mikil vinna var á Þórkötlustöðum og var ég oft þreytt sem varð til þess að ég talaði  stundum  upp úr svefni. Á þessu stríddi Óli mér  og sagðist hafa heyrt  margt sniðugt og gaf oft í skyn að ég  hafi talað um  ýmislegt sem aðrir ættu ekki að heyra. En ég vissi að þetta var stríðni í honum og hafði bara gaman af. Það var aðeins einu sinni sem ég sá Óla verða reiðann en það var eftir að hafa lent í smávegis ævintýri með  vinkonu úr fiskivinnslunni  og strákum sem þar unnu. Við vorum báðar  af höfuðborgarsvæðinu  og  spenntar yfir athyglinni frá strákunum. Okkur var boðið  í bíltúr með nokkrum strákum sem entist langt fram á nótt og ekki var farsíminn til staðar á þessum tíma til að láta vita af sér. Þegar ég kom heim um nóttina seint og síðar meir var ekki gaman að ganga upp að húsi þeirra hjóna þar sem þau  stóðu bæði með reiðan svip. Strákarnir kvöddu með þeim orðum  að nú ætti ég ekki von á góðu. Ég minnist þess hvað  ég skammaðist mín mikið þegar ég gekk inn og átti von  á hinu versta. Óli sagði ekki mikið og ekki heldur Anna Mary en þó lét hún aðeins í sér heyra.  Þegar ég sá svipinn á  Óla hugsaði með mér, að nú hefði ég fallið í áliti hjá þessum manni og fannst  það ekki góð tilfinning. Þessi atburður var aldrei ræddur frekar en ég bað Óla afsökunar daginn eftir og útskýrði hvernig málin hefðu atvikast. Hann sýndi mér skilning og sagði að fyrir öllu væri  að ekkert hefði komið fyrir, en hann var frekar alvarlegur á eftir og bað mig um að fara varlega. Þessi góða framkoma Óla lýsir honum vel.Svona minnist ég Óla; góðum, hæglátum, hláturmildum, stríðnum sem vildi öllum allt hið besta og gott var að tala við.

Elsku Óli minn, far þú í friði, þín verður sárt saknað.

Elsku Anna Mary mín, Heiðbjört , Ómar Davíð og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Guðrún Margrét Salómonsdóttir.

Elsku Óli, nú ertu farinn og leystur þrautum frá. Margs er að minnast og sakna, og eru okkur þá minnisstæðust ferðirnar okkar, bæði innanlands og utan.  Ferðirnar með þér Óli minn og Önnu voru yndislegar, farið var í göngutúra, sungið og trallað. Þú varst söngmaður mikill Óli minn og hafðir gaman af söng.  Okkur er minnisstætt hversu orðheppinn þú varst og stutt í stríðnina hjá þér. Hvernig þú komst kímni þinni góðlátlega til skila og sást alltaf spaugilegu hliðarnar á flestum málum. Æðruleysi þitt var aðdáunarvert í veikindum þínum og kom það vel í ljós er á reyndi. Þú hafðir ánægju af búskap þeim sem þú stundaðir og hafðir yndi af þeim kindum sem þú áttir og hugsaðir vel um þær. Þú varst dugmikill sjálfstæðismaður og starfaðir vel af þeim hugarefnum þínum þar sem og einnig í Björgunarsveit Grindavíkur.

Elsku Óli minn, við kveðjum þig með söknuði, far þú í friði og Guð veri með þér.

Elsku Anna Mary mín, Heiðbjört, Ómar Davíð og fjölskylda, Guð styrki ykkur í ykkar miklu sorg.

Salómon og Ingibjörg.