Eiríkur Kolbeinn Eiríksson fæddist þann 25. mars 1926, í Þingdal í Flóa. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 12. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Eiríkur Kolbeinsson, f. 15. janúar 1875 í Stóru-Mástungu í Eystri-hrepp, d. 12. september 1925 og Ragnheiður Benjamínsdóttir, f. 8. júní 1891 í Syðri-Gegnishólum í Flóa, d. 21. apríl 1981. Fósturforeldrar Eiríks frá þriggja vikna aldri voru hjónin Björn Markússon og Margrét Jóhannsdóttir, bændur á Gafli í Villingaholtshreppi. Alsystkin Eiríks voru drengur Eiríksson, f. 30. júní 1921, d. sama dag og Sigríður Benny Eiríksdóttir, f. 18. mars 1924. Bróðir Eiríks samfeðra var Gísli Eiríksson, f. 10. maí 1909, d. 22. október 1992. Börn Eiríks og Ingibjargar Halldórsdóttur, f. 29. júlí 1922 frá Króki í Gaulverjabæjarhreppi eru 1) Lilja, f. 22. september 1949, gift Gísla Grétari Magnússyni. Börn þeirra eru Magnús f. 10. júní 1969, kvæntur Kristínu Traustadóttur, börn þeirra eru Gísli Rúnar, Trausti Elvar, Anna Bára og Hjalti Heiðar. Ingibjörg, f. 6. maí 1971, gift Guðmundi Maríasi Jenssyni, börn þeirra eru Andrea, unnusti Davíð Örn Jónsson, og María Dögg. Ragnheiður f. 26. júlí 1973, gift Ævari Svan Sigurðssyni, börn þeirra eru Lena Rut og Arnar Svan. 2) Björn Heiðrekur, f. 6. maí 1953, kvæntur Arnheiði Húnbjörgu Bjarnadóttur. Börn þeirra eru Tinna Ósk, f. 10. nóvember 1981, gift Finni Hafliðasyni, börn þeirra eru Arndís María og Hildur Embla. Inga Dóra, f. 8. júlí 1983, gift Tómasi Jóni Sigmundssyni, börn þeirra eru Sigmundur Nói, Benedikt Snær og Óskar Tumi. Lilja, f. 17. júní 1988, í sambúð með Agnari Benediktssyni. Fríða, f. 17. júní 1988, í sambúð með Jóni Hilmari Magnússyni. Eiríkur tók við búi fósturforeldra sinna á Gafli og bjó þar allan sinn búskap með Gunni Gunnarsdóttur f. 16. september 1917, d. 11. ágúst 2007. Þegar Eiríkur hætti búskap á Gafli flutti hann á Selfoss og bjó þar til dauðadags. Sambýliskona hans síðustu árin var Áshildur Öfjörð Magnúsdóttir f. 29. september 1930. Útför Eiríks verður gerð frá Selfosskirkju í dag, laugardaginn 19. júní 2010, kl. 11. Jarðsett verður í Villingaholtskirkjugarði.

Í fátæklegum orðum langar mig að minnast afa míns Eiríks á Gafli. Afi minn Eiríkur Kolbeinn Eiríksson var aðeins þriggja vikna gamall þegar hann var tekinn í fóstur að Gafli í Villingaholtshreppi. Þar ólst hann upp hjá fósturforeldrum sínum ásamt börnum þeirra. Faðir afa lést úr lungnabólgu þegar hann var enn í móðurkviði. Það voru ekki vegir um sveitina í þá daga og oftast ferðast um á hestum. Afi var ekki nema níu ára gamall þegar hann var sendur einn frá Gafli að Baugstöðum með rjóma í rjómabúið. Þeir sem til þekkja vita að ferðalagið hefur verið langt fyrir ungan dreng og sjálfsagt stundum kalt og einmanalegt. Afi hafði það á orði að það hefði alltaf verið vel tekið á móti honum á bænum Hamri sem var í leiðinni. Honum var gefið heitt að drekka og hlýjað um stund. Gott lag hefur hann haft á hestum fyrst honum var falið svo ábyrgðarfullt hlutverk sem það hefur verið að fara með rjómann. Hestur spenntur við vagn og lítill hugmaður við stjórn hefur verið merkileg sjón að sjá og gott dæmi um þá baráttu sem forfeður okkar háðu. Eiríkur afi tók við búinu að Gafli og bjó þar lengstum eða þar til hann flutti á Selfoss. Snemma fékk hann verslunarleyfi og náði hann í ýmsar nauðsynjar fyrir sig og sveitunga sína. Var mikið á ferðinni um allt land og kynntist mörgu fólki í gegnum tíðina. Eftir að afi fluttist á Selfoss hittumst við oftar og það var gaman að vera í kringum hann. Hress og kátur og kunni  að segja frá mörgu skemmtilegu. Afi var mikill listamaður og hafði mikinn áhuga á myndlist. Hann málaði sjálfur nokkrar myndir og það hefði verið gaman að sjá fleiri myndir eftir afa. Árið 2002 veiktist afi mikið og var um tíma nokkuð veikur á spítala. Eftir spítalavistina bjó hann hjá mömmu og pabba og beið þess að ná fullri heilsu aftur. Það gekk brösuglega að fá hann til að borða þar til mömmu datt í hug að sjóða skötu handa honum. Afi var í eðli sínu mikill flökkukarl nútímakúreki, eins og einhver orðaði það og það var eins og við manninn mælt. Nokkrum dögum eftir  skötumáltíðina lá miði á eldhúsborðinu: er farinn á strandir eða norður í land, kveðja Eiríkur. Afi var kominn á ferðina aftur og síðar dundaði hann sér meðal annars við að færa okkur barnabörnunum ávexti. Þegar hann kom bað hann húsmóðurina að koma út að bíl og sagði komdu með fat og hafðu það stórt. Síðan týndi hann vínber, banana, epli og appelsínur í fatið og stundum kom hann inn og hossaði Hjalta litla, sínu yngsta langafabarni. Afa þótti alveg óskaplega gaman að sjá hvað strákurinn gat étið af vínberjum. Afi fór aftur á spítala í fyrra haust og var þá við dauðans dyr. Maðurinn með ljáinn var farinn að vera óþægilega nærgöngull, en afi reis upp aftur með góðri hjálp. Ég vil þakka okkar yndislega heilbrigðisstarfsfólki fyrir alla hjálpina og ekki síst henni Öddu fyrir allar stundirnar hjá afa á spítalanum.

Afi bauð langafabörnum sínum í afmælið sitt í mars síðastliðnum, þar var boðið upp á vínarbrauð og kók. Hann lagði mikla áherslu á að fá börnin og helst foreldrana með í kaffi. Þar naut hann þessarar stundar með afkomendum sínum og gleðin skein úr andliti hans. Þessi stund er okkur fjölskyldunni afar dýrmæt minning. Þegar skoðaðar eru gamlar myndir af afa sér maður afskaplega myndarlegan mann sem minnir um margt á einhvern stórleikarann. Dökkur yfirlitum með þykkt svart hár og arnarnef. Minningin mun lifa áfram um bóndann sem yrkir jörðina og sáir og uppsker eftir því. Við afkomendur afa munum halda minningu hans á lofti um ókomna tíð.

Þetta ljóð eftir Þorstein Valdimarsson finnst mér passa vel við afa sem var engum háður og frjáls eins og örninn.

Þar sem ég er, þar er ég

svo einfalt er það.

Og þegar ég fer, þá fer ég,

og þá fyrst, í annan stað.

/

Handgenginn engum áttum,

af öllum frjáls,

næ ég hvarvetna háttum

mín sjálfs.

(Þorsteinn Valdimarsson)

Afi minn hvíl þú í friði.

Magnús Gíslason.