Valgeir Sigurðsson vélvirki, til heimilis í Reykjanesbæ, fæddist í Reykjavík 18. mars 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2. október 2011. Foreldrar hans voru Sigurður Jósef Ólafsson, f. 1893, d. 1948, og Áslaug Jóhannsdóttir, f. 1900, d. 1964. Valgeir var einbirni. Hinn 27. maí 1950 kvæntist hann Guðmundu Magneu Friðriksdóttur frá Látrum í Aðalvík, f. 5. janúar 1925. Foreldrar hennar voru Friðrik Finnbogason, f. 1879, d. 1969, og Þórunn María Þorbergsdóttir, f. 1884, d. 1975. Valgeir og Guðmunda bjuggu í Keflavík allan sinn búskap, lengst af á Hátúni 5. Þau áttu átta börn: 1) Laila Jensen, f. 1946, gift Sigurði Halldórssyni, f. 1945, börn þeirra: a) Brynja, f. 1966, á hún tvær dætur. b) Magnús, f. 1969, kvæntur Dóru Waldorf, f. 1964, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. c) Valgeir, f. 1969, d. 1970. 2) Sigurður, f. 1949, kvæntur Bjarneyju Gunnarsdóttur, f. 1951, börn þeirra: a) Valgeir, f. 1977, b) Gunnar, f. 1978. 3) Óli Þór, f. 1951, kvæntur Elínu Guðjónsdóttur, f. 1952, börn þeirra: a) Ásta, f. 1968, gift David P. Dorsett, f. 1970, þau eiga tvo syni. b) Valgeir, f. 1971, í sambúð með Sólveigu Borgarsdóttur, f. 1968, þau eiga eina dóttur. c) Elín María, f. 1978, gift Örlygi Örlygssyni, f. 1977, þau eiga þrjá syni. d) Áslaug, f. 1980, d. 2000. 4) Áslaug, f. 1952, gift Robert D. Williams, f. 1954, börn þeirra: a) Katrín f. 1972, faðir hennar er Garðar Tyrfingsson, b) Robert Daníel, f. 1977, c) Maríanna Patricia, f. 1981, d. 2010. 5) Friðrik Már, f. 1953, var kvæntur Ingigerði Guðmundsdóttur, f. 1954. Þau slitu samvistir. Börn þeirra: a) Ingi Garðar, f. 1973, kvæntur Aðalsteinu Gísladóttur, f. 1973. Þau eiga tvö börn. b) Guðmunda Magnea, f. 1979. c) Sandra Dögg, f. 1989. 6) Gunnar Valgeir, f. 1957, kvæntur Cristinu Bodinger-de Uriarte, f. 1955. 7) Herborg, f. 1963, gift Guðjóni Guðmundssyni, f. 1960, börn þeirra: a) Ingimundur, f. 1990, b) Eyþór, f. 1995. 8) Guðrún, f. 1966. Útför Valgeirs fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 11. október 2011, kl. 13.

Í dag kveðjum við okkar kæra föður.

Pabbi fæddist í Reykjavík og ólst upp í Þingholtunum. Hann sagðist alltaf vera Reykvíkingur þótt hann hafi búið meirihluta ævinnar í Keflavík. Þangað flutti hann um tvítugt eftir að hann kynntist móður okkar, en mamma kemur úr stórri fjölskyldu, yngst 17 systkina en pabbi var einbirni. Hann missti föður sinn 19 ára eftir veikindi en móður sína missti hann mun síðar.

Pabbi var duglegur að fara með okkur til Reykjavíkur og kynna okkur fyrir höfuðborginni og eigum við systkinin margar góðar  minningar um þær ferðir.  Hann var fróður um gömlu borgina, vildi helst keyra Grettisgötuna, Laugaveginn og þar í kring, þegar við fórum í bæinn og alltaf  sagði hann okkur fróðlegar sögur um íbúa miðbæjarins , hver bjó hvar, hvar hann lék sér o.fl. Þegar við keyrðum niður Laugaveginn urðum við að keyra hægt því hann vildi segja okkur frá hvaða búðir voru þá á Laugaveginum og hvað allt kostaði.

Pabbi var mjög minnugur á allar tölur, og ártöl. Oftar en ekki sagði hann frá því hvar á Laugaveginum hann lét sauma á sig sín fyrstu jakkaföt og hvað þau kostuðu. Þegar pabbi var að alast upp í Reykjavík voru sveitabæir í kringum miðbæinn, m.a. bærinn Klambri þar sem Klambratún er í dag og man hann vel eftir því. Einnig fór hann með ömmu og afa að taka upp kartöflur og annað þar sem verslunarmiðstöðin Kringlan er í dag og hjálpaði ömmu að bera þvott í þvottalaugarnar í Laugardal. Það er óhætt að segja að hann upplifði miklar breytingar á höfðuborginni  á sinni ævi.

Pabbi kynntist mömmu árið 1946 en þau giftust árið 1950. Þau bjuggu á nokkrum stöðum í Keflavík en fjölskyldan stækkaði ört og flutti að lokum á Hátún 5 sem hann byggði og þar ólumst við systkinin upp. Systkinahópurinn er stór og var mikið um að vera á heimilinu en mamma var heimavinnandi og alltaf til staðar. Þegar við vorum öll farinn að heiman fluttu þau á Kirkjuveg 1 (Hornbjarg).

Pabbi vann alltaf mikið, var vélvirki og járnsmiður. Hann lærði í Vélsmiðjunni Hamar, vann ýmis störf , m.a. hjá hernum á Keflavíkurflugvelli en lengst af hjá Álverinu í Straumsvík, yfir 30 ár, þar til hann komst á eftirlaun. Hann talaði alltaf vel um Álverið og hve vel hugsað var um starfsmennina þar.

Pabbi var mikið snyrtimenni , alltaf nýrakaður, vel klipptur og vel til hafður. Hann hafði mikinn áhuga á bílum og hugsaði einstaklega vel um bílana sína og passaði alltaf vel upp á að bensíntankurinn væri fullur og mælirinn færi ekki fyrir neðan hálfan tank.

Pabbi og mamma voru mjög dugleg að ferðast með okkur systkinin um landið og voru farnar ófáar tjaldútilegur um helgar og í sumarleyfum. Margar myndir eru til af okkur frá ferðalögunum og finnst okkur alltaf gaman að skoða þær og rifja upp minningar. Þegar flest systkinin voru farinn að heiman fóru þau í sumarbústaðaferðir með yngstu systurnar og oftast fylgdu eitthvað af barnabörnunum með.  Einnig voru þau dugleg að ferðast erlendis seinni árin og fannst gott að njóta sólarinnar þar og stytta þannig veturinn. Þau voru líka duglega að taka þátt í  starfi Félags eldri borgara á Suðurnesjum, fara í leikhús, ferðalög og skemmtanir á þeirra vegum. Pabbi var einnig meðlimur í Púttklúbbi Suðurnesja eftir að hann komst á eftirlaun og tók þátt í mótum og  átti orðið myndarlegt safn af bikurum  og verðlaunapeningum.  Hann var einnig í stjórn Hjartaheillar á Suðurnesjum í mörg ár.

Pabbi var mikill íþróttaunnandi. Hann æfði m.a. fimleika ungur og stundaði skíði.

Hann fór mikið með okkur öll á ýmsa íþróttaviðburði, ekki bara í Keflavík, einnig til Reykjavíkur og jafnvel víðar.  Hann var fastagestur í Íþróttahúsinu í Keflavík og fór á flesta körfuboltaleiki og sat alltaf á sama stað.

Einnig var fylgst með Evrópu- og heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum í sjónvarpinu. Þessi áhugi hans á íþróttum hefur smitað okkur öll systkinin og einnig barnabörnin.

Minningin um þig lifir áfram hjá okkur

Hvíl í friði elsku pabbi.

Þín börn,

Laila, Siggi. Óli, Áslaug, Frikki, Gunni, Herborg og Guðrún .