Ásgrímur Hartmannsson fæddist á Kolkuósi í Viðvíkurhreppi hinn 13. júlí 1911 og ólst þar upp. Hann lést á Hornbrekku í Ólafsfirði að morgni 13. ágúst síðastliðinn. Foreldrar Ásgríms voru Hartmann Ásgrímsson, kaupmaður og oddviti á Kolkuósi, f. 8.9. 1874, d. 8.8. 1948, og kona hans, Kristín Símonardóttir, húsfreyja, f. 16.10. 1866, d. 21.4. 1956. Hartmann var sonur Ásgríms b. í Hvammi, Hjaltadal, Gunnlaugssonar og Guðrúnar Ólafsdóttur (fór til Vesturheims), b. á Reistará ytri, Jónssonar og konu hans Guðlaugar Ólafsdóttur. Kristín var dóttir Símonar b. í Brimnesi í Viðvíkursveit, Pálmasonar og Sigurlaugar Þorkelsdóttur frá Svaðastöðum. Bræður Ásgríms voru: Þorkell Björn, f. 4.4. 1904, d. 6.4. 1924, og Sigurmon, f. 17.11. 1905, d. 19.11. 1993. Fóstursystkin: Ingibjörg Jósefsdóttir, Guðrún Hartmannsdóttir, Jónína Antonsdóttir, þau eru látin og Hartmann Antonsson sem býr á Selfossi. Árið 1937 kvæntist Ásgrímur Helgu Jónínu Sigurðardóttur, f. á Vatnsenda á Ólafsfirði 22.3. 1917. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson og Sigríður Vilhjálmsdóttir, lengst til heimilis í Höfn í Ólafsfirði, bæði ættuð úr Svarfaðardal. Börn Ásgríms og Helgu eru: Sigríður, f. 1938, gift Kristjáni Sæmundssyni, og eiga þau sex börn og 16 barnabörn; Kristín, f. 1941, gift Ólafi Sæmundssyni, þau eiga fimm börn og 16 barnabörn og tvö barna-barnabörn; Þórgunnur, f. 1946, gift Kristjáni Þórhallssyni, þau eiga tvö börn; Ingibjörg, f. 1949, gift Þorsteini Ásgeirssyni og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn; Nanna, f. 1953, gift Guðmundi Haukssyni, þeirra börn eru fimm og tvö barnabörn; Hartmann, f. 1955, kvæntur Eddu Björk Hauksdóttur og eiga þau átta börn. Afkomendur eru því orðnir 75. Ásgrímur stundaði nám við Alþýðuskólann á Eiðum og lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Hann stundaði einnig sérnám í bókfærslu í Reykjavík. Ásgrímur flutti til Ólafsfjarðar 1935. Hann var kaupmaður í Ólafsfirði 1935-63, bæjarstjóri þar í 29 ár 1946-1974 og framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar hf. 1975-83. Auk þess gegndi Ásgrímur fjölda trúnaðarstarfa, bæði innan Ólafsfjarðar sem utan. Hann var einn af stofnendum Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar og virkur félagi fram á efri ár. Ásgrímur var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar 1972 og var heiðursborgari Ólafsfjarðar frá 1985. Útför Ásgríms fór fram frá Ólafsfjarðarkirkju 18. ágúst 2001.

Eftirfarandi vísur voru ortar til minningar um Ásgrím Hartmannsson fyrrverandi bæjarstjóra á Ólafsfirði til 29 ára og konu hans Helgu Sigurðardóttur og   fluttar á  ættarmóti sem haldið var 23.07 2011.

Hinn 13. júlí 2011 hefði Ásgrímur orðið 100 ára.

Hann fæddist í Skaga-firði

fríður var ungur sveinn.

Spurning hvað úr honum yrði

alltaf var hreinn og beinn.

/

Ásgrímur  skírður sá stutti

í Skagfirskum Kolkuós.

Til fjarðar Ólafs svo flutti

er féll fyrir í Helgu rós.

/

Að Vatnsenda blessað blóm

borin var Helga þar.

Sú kona var falleg og fróm

og fegurð að innan bar

/

Hún ólst upp í Höfninni fyrstu

og í húsmæðraskóla fór.

Með foreldrum og Stínu systu

sú ólst upp uns varð hún stór.

/

Þeim fæddist svo fjöldi barna

og flott þau byggðu  hús.

Það stendur við götuna þarna

og þar síðan  lifðu fús.

/

Sigríður heitir sú fyrsta

svo kemur Kristín næst.

Þá er það Þórgunnur systa

því sonurinn ekki fæst.

/

Og Inga er fjórða sem fæddist

sú fimmta  er Nanna Hart.

Í sjötta sá loksins læddist

lávarður ættar skart.

/

Nú fjölgar sér ættin og fjölgar

svo ferlega ört og hratt.

Ég veit ekki hvar þetta endar

með ósköpum nei það er satt.

/

Því ættin er ekki svo vonlaus

og hægt er að lynd´hana við.

Svo er hún ekki vitlaus

eða hvað segið viðhengin þið.

/

Hótel þau höfðu rekið

í hartnær tíu ár.

Það tæpast með sæld var tekið

þetta eilífa gestafár

/

Verslun þar líka var rekin

og vara í  úrvali var.

Um sextíu og þrjú  var svo tekin

sú ákvörðun að hætta þar.

/

Meðan Ásgrímur pólitík unni

alltaf var Helga að.

Þá list að elda hún kunni

ég vitnað get um það

/

Það mæddi á Helgu oft mikið

meira en flestum hér.

Stundum Ásgrímur fór yfir strikið

er starfið tók heim með sér.

/

Oft hann í matinn mætti

með menn sem unnu fyr hann.

Þá Helga bara í pottinn bætti

og brosti fyrir sinn mann.

/

Eilífur gesta gangur

gerði börnunum leitt.

Að heilsa öllum var angur

og aldrei friður við neitt.

/

Alltaf stóð bærinn opinn

ef einhver droppaði við.

Og aldrei var tómur sopinn

án tertu að gömlum sið.

/

Gott var í kaffi að kíkja

er komið var bæinn í.

Þar aldrei þurfti að sníkja

það hlaðborðið sá fyrir því.

/

Það hljóta að muna það flestir

þegar komið var til þeirra inn.

Það voru þar alltaf gestir

því þetta var siðurinn

/

Ásgrímur stundaði starf fyrir bæinn

það stutt var í þrjátíu ár.

Hann var líka góði gæinn

sem gerði svo margt upp á hár.

/

Það tók stundum tolla frá börnum

í túrunum suður í Vík.

Þetta var líka í þvílíkum törnum

að þekkist vart vinna slík.

/

Um helgar var skákin oft skoðuð

og skemmtun að tefla við hann.

Í tafli var baráttan boðuð

en ekki bara að drepa einn mann.

/

Hann var slyngur og seigur að tefla

svo menn oft sig vara máttu.

Og víst  vildi hann listir þær efla

í eilífri stöðu baráttu.

/

Kvenfélags Helga var kona

sem kosin var formaður oft.

Það sýnir bara si svona

sem reynt hef að halda á loft.

/

Að þar fór kona með kraftinn

og karlinn sinn studdi vel.

En engum hún gaf á  kjaftinn

og ætíð með vinarþel

/

Ég veit að ég get ekki orðað

allt sem ég vildi sagt.

Svo ykkur frá verður forðað

að finnast hér of í lagt

/

Þeim heiðurshjónum vil þakka

þann tíma sem áttum með þeim.

Ef tækist nú tíma að bakka

þá töfrum þau aftur heim.

/

En þar sem að það er ei boðið

þá minningu höldum á loft.

Og ævina  þeirra þið skoðið

það skulum við gera oft.

Þorsteinn Ásgeirsson