Valur Erling Ásmundsson fæddist í Hafnarfirði 28. október 1932. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut mánudaginn 14. júlí 2014. Foreldrar hans voru Ásmundur Jónsson bakarameistari, f. 3. september 1889, d. 15. júlí 1969, og Guðný Kristín Björnsdóttir, f. 23. ágúst 1898, d. 1. maí 1937. Seinni kona Ásmundar og fósturmóðir Vals var Kristín Edvardsdóttir, f. 17. nóvember 1910, d. 4. júlí 1995. Valur var næstyngstur fjögurra bræðra. Þeir eru Gunnar, f. 29. september 1922, d. 10. október 2006, maki Sigríður Oddný Oddsdóttir, f. 11. nóvember 1926; Stefán, f. 17. apríl 1926, maki Guðfinna Nikulásdóttir, f. 16. apríl 1926; og Edvard, f. 2. mars 1939, d. 4. maí 1974, maki Erna Jóhannsdóttir, f. 18. janúar 1942. Valur kvæntist 12. apríl 1958 Ólöfu Valdimarsdóttur, f. 12. febrúar 1934. Foreldrar hennar voru Valdimar Guðmundsson vélstjóri, f. 19. október 1900, d. 3. nóvember 1991 og Ásgerður Þorleifsdóttir fiskverkakona, f. 9. apríl 1904, d. 17. ágúst 1996. Valur og Ólöf eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Ása Kristín Valsdóttir, f. 21. júlí 1957, maki Stefnir Svan Guðnason, f. 16. júlí 1958. Sonur Ásu er Ásgeir Fannar Jóhannson, f. 9. mars 1978. Dóttir Ásu og Stefnis er Sigrún Ólöf Stefnisdóttir, f. 21. maí 1985, sambýlismaður hennar er Jorge L. Bitelli. 2) Jón Örn Valsson, f. 16. nóvember 1959, maki Elísabet Ann Cochran, f. 25. nóvember 1959. Synir Jóns Arnar eru Fannar Freyr Jónsson, f. 17. september 1980 og Anton Valur Jónsson, f. 7. nóvember 1987. Maki Fannars Freys er Erna Björg Smáradóttir, f. 3. september 1980. Börn Ernu og Fannars eru Þórdís Erla og Bergdís Freyja. Börn Elísabetar eru Íris Cochran Lárusdóttir, f. 10. maí 1986, sambýlismaður hennar er Fannar Freyr Ívarsson og Daníel Cochran Jónsson, f. 13. febrúar 1989. 3) Erling Þór Valsson Klingenberg, f. 21. janúar 1970, sambýliskona Sirra Sigrún Sigurðardóttir, f. 7. maí 1977. Börn Erlings eru Gabríel Örn Erlingsson, f. 1. september 1990 og Saga Sigríðardóttir, f. 14. september 1991. Dóttir Sirru Sigrúnar er Katrín G. Sigrúnardóttir. Valur E. Ásmundsson var fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og bjó þar alla tíð utan tveggja fyrstu hjúskaparáranna. Hann ólst upp í Gunnarssundi 10 og sótti skóla í Barnaskóla Hafnarfjarðar og árið 1956 útskrifaðist Valur frá Verslunarskóla Íslands. Sem ungur maður vann Valur ýmis störf, meðal annars í verslun Þorsteins Bergmann, Bókaverslun Ísafoldar, hjá Vátryggingafélaginu hf. og fyrir tímaritið Vikuna. En stærstan hluta starfsferils síns vann Valur fyrir Hafnarfjarðarbæ, lengst af sem bæjargjaldkeri. Valur var mjög virkur í ýmsu félagsstarfi alla tíð, starfaði með Bræðrafélagi Fríkirkjunnar, KFUM og passaði börnin í Kaldárseli. Hann var einn af stofnendum Skotveiðifélags Hafnarfjarðar, ritstjóri Hamars, í stjórn Stefnis og virkur félagi í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar. Valur verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 22. júlí 2014, og hefst athöfnin klukkan 15.

Faðir minn er látinn og sárt að þurfa að kveðja. Hann er faðir sem skilur eftir minningar um stórkostlega æsku mína, fulla af ævintýrum og gæsku.

Hann kenndi mér svo mikið um snyrtimennsku, hvort sem það var í klæðaburði, að bursta skó eða þrífa bíl - og þó erfitt sé reyni ég enn að feta í fótspor hans þar.

Hann kenndi mér þó ekki einungis það, heldur svo margt um manngæsku, réttlæti, fallegt innræti og húmor.

Skrifstofan hans pabba í kjallaranum á Ölduslóðinni var sannkallaður ævintýraheimur barna er þangað komu. Þar úði og grúði af allskyns hlutum, sem hann hafði safnað að sér, sannkölluð skipulögð óreiða. Oftar en ekki spurði einhver krakkinn um eitt eða annað og sagði pabbi þá "augnablik" og skimaði í eða á bakvið einhverja "hrúguna" og dró það fram með bros á vor - það var einsog galdrar, að hann vissi nákvæmlega hvar hlutirnir voru í þessum mikla skógi - og oft fylgdu skemmtilegar sögur með þessum hlutum.

Í kjallaranum, fyrir utan allsérstöku skrifstofu pabba, var oft skapaður annarskonar heimur út af fyrir sig, sem hann bjó til með krökkunum, m.a. með kvikmyndasýningum og oftar en ekki voru þar smíðaðir ævintýrakastalar og leikföng, og þar var teiknað og ýmsir hlutir límdir og settir saman - skrýtnir og spennandi hlutir skoðaðir og skapaðir.

Pabbi var einstakur húmoristi og hafði mikla sköpunargleði sem stundum glatast er fólk fullorðnast - en hann glataði aldrei barninu í sér enda var hann alltaf sérstaklega vinsæll af börnunum - og eru þau ófá sem muna hann sem þarna skemmtilega karlinn.  Hann kenndi okkur líka að hægt var að búa til svo margt úr fundnum efnum og hlutum, að ekki þyrfti að kaupa allt út úr búð, heldur væri hugmyndaflugið það eina sem þyrfti.

Hann elskaði líka óvænta hluti sem gerast á lífsleiðinni og sagði mér oft með bros á vör þá sögu er ég var loksins búinn að venjast af bleyju og að byrja að nota klósettið. Einn daginn heyrist kallað eftir hjálp frá salerninu. Pabbi hljóp þá hratt þar inn og sá mig son sinn í bóndabeygju, fastan ofan í klósettinu.  Barngóði pabbi en jafnframt húmoristinn sem hann var, fann sig knúinn í mjög svo fyndnum aðstæðum að ná í myndavél og ná að smella mynd af þessu atviki - áður en hann þar næst bjargaði mér upp úr klósettinu. - Hvort sem þetta atvik olli vatnshræðslu hjá mér unga drengnum skal ósagt, en erfitt var oft á tíðum að fá mig til hárþvotta - og sagði pabbi því stundum að ef ég myndi ekki þvo mér um hárið myndi það detta af og virkaði það stundum á mig.

Dag einn, nokkru síðar, hélt pabbi svo á mér á útiskemmtun á sjómannadeginum og þar sem við stóðum í mannþrönginni tók ég mig til og teygði út anga mína og klappaði á nærstætt hárlítið höfuð og sagði heyrðu manni, þværð þú þér aldrei um höfuðið.

- Valur notaði þessa sögu oft sem dæmi um að ekki borgaði sig að skrökva að börnum.

Það var mjög gaman sem krakki að ganga um borg og bæi með Val, en oft erfitt þar sem hann stoppaði svo oft til að heilsa fólki sem hann þekkti, og fannst manni stundum að hann þekkti allan heiminn . . . en oftast hafði maður þolinmæði til að bíða enda gat maður heyrt skemmtilegar sögur sem þar voru sagðar . . .

Þegar hann hitti allt þetta fólk kynnti hann sig oft sem verst launaða bæjargjaldkera norðan alpafjalla... hvort sem það var í gríni eða alvöru sagt þá er eitt víst að hann hafði mikið gaman af vinnunni, samstarfsfólki sínu og mörgum þeim sem hann kynntist í starfinu. Sem bæjargjaldkeri var algengt að hann sendi með gluggaumslögunum brandara sem hann hafði klippt út og safnað og vakti mikla kátínu margra og létti undir misskemmtilegum póstum bæjarins.

Svo var það eitt sinn er pabbi þurfti að leggjast inn á Grensásdeild í endurhæfingu, að þar lá með honum í herberginu maður sem virtist hafa svipaðan húmor og hann, enda urðu þeir miklir vinir og grölluðust mikið þarna inni.

Einn daginn, hringdi herbergisfélaginn bjöllu til að kalla á hjúkrunarkonuna sem kom stuttu seinna.  Maður þessi benti þá á rúmið þar sem pabbi lá með breidda sængina upp fyrir haus og sagði heyrðu, það eru búin að heyrast svo skrýtin hljóð frá honum Val.  Hjúkrunarkonan fór auðvitað strax að þar sem pabbi lá og dró niður sængina  en í stað þess að sjá andlit pabba blasti þar við skrímsli og brá henni svo mikið að hún spólaði með fótunum þar sem hún stóð og vissi ekki hvert hún ætlaði. - Heyrðust þá mikil hlátrasköll frá vininum og pabba þar sem hann dró niður ógnvekjandi grímu sem hann hafði sett á höfuð sitt.

En auk þess að hafa gaman af því að gantast, þá hafði Valur pabbi minn mikið dálæti á ferðalögum, og eru margar góðar minningar okkar barnanna bæði í bílunum á leiðinni og í tjaldinu eða tjaldvagninum á áfangastað, oft við vötn þar sem köst og fiskihnútar voru kenndir, stundum róið út á vötn og  sagðar sögur til að stytta biðina eftir að bitið yrði á. Það var ætíð ævintýri að ferðast með pabba enda var hann frábær ferðafélagi -  hvort sem ferðast var innan heimilis eða að heiman.

Það hversu mikið hann faðir minn hafði gaman af því að dunda sér með mér við að skapa ýmislegt, og leyfa manni að taka þátt í því sem honum þótti skemmtilegt, þá var það líka trú hans á mig sem hafði mikil áhrif á þann atvinnuveg sem ég valdi mér. Hann og móðir mín fóru á margar myndlistarsýningar, og tóku þau mig ungan son sinn oft með og má vel vera að þar hafi kviknað áhugi minn á þeirri grein.  Enda voru þessar ferðir eftirminnilegar þar sem pabbi gat sagt svo margar sögur um bæði listaverk og listamenn, mörgum af þeim hafði hann kynnst sjálfur vel á lífsleiðinni og í Bókabúð Ísafoldar þar sem hann eitt sinn vann. Pabbi var alltaf hvetjandi þegar sköpun var annars vegar og gerði veginn þannig greiðfæran fyrir mig sem er ómetanlegt. Enda þó hann hafi ekki gert þann veg að atvinnu sinni var áhugi og sköpunarkraftur hans aldrei langt undan í svo mörgum af hans gjörðum. Þegar ég fór sjálfur að sýna myndlist, vantaði sjaldan föður og móður á þær sýningar.

Pabbi var ekki einungis hrifinn af einni listgrein. Pabbi sagði gjarnan sögu frá æsku sinni, eitt sinn er hann var að leika sér og hitti þá annan ungan dreng við kanínukofa, sá er stóð við hlustir mjög einbeittur með tvö prik í hendi.  Allt í einu fóru að heyrast taktföst hljóð innan úr kanínukofanum þar sem náttúran var við öll völd.  Byrjaði þá þessi ungi drengur að tromma á kofann í takt við þessi atlot hjá kanínunum og gerði það afskaplega vel - svo vel að Valur sagði þessa sögu mjög oft þegar hann var orðinn eldri og hlustaði á góðar djassplötur, enda reyndist þessi sami ungi taktgóði drengur vera orðinn mjög þekktur trommuleikari og góðkunningi pabba.

Pabbi sagði að kannski þarna byrjaði hann að fá áhuga á fallegum töktum og hljómum djassins - allt frá kanínukofanum til Hauk Morthens, Jóns Múla Árnasonar, Louis Armstrong og margra fleiri góðra djassgeggjara og tónlistarmanna.

Það var ósjaldan sem góður djass ómaði nálægt Vali Ásmundssyni og má kannski segja að lífið hans hafi verið líkt og allir tilfinningaskalar djassins.

Elsku faðir minn, þú ert stórt safn minninga. Hvíl í friði.

Erling Þór Valsson Klingenberg.