Hákon Ólafsson fæddist í Reykjavík 29. mars 1960. Hann lést á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi 20. maí 2015.
Hákon var sonur Ólafs Pálssonar, prentara, prentsmiðjustjóra og útgefanda í Reykjavík, f. 1941, og Guðnýjar Hákonardóttur, húsfreyju, f. 1943, d. 2008. Fósturforeldrar hans voru hjónin Einar K. Sumarliðason, f. 1919, d. 2008 og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 1927, d. 1994 til heimilis í Reykjavík. Fóstursyskini Hákonar, börn Einars og Ingibjargar, eru Jóhanna, f. 1947, Sumarliði Gísli og Sveinbjörn, f. 1962, og Bjarni f. 1966.
Systkini sammæðra eru Óskar, 1961, d. 1973. Gísli, 1964, Sigurbjörg 1968 og Guðný Anna, f. 1970, Bragabörn. Systkini samfeðra: Páll Þórir, Guðrún Sóley og Sigurrós Ólafsbörn.
Hákon gekk í Álftamýrarskóla í Reykjavík og útskrifaðist sem vélfræðingur frá Vélskóla Íslands 1996. Samhliða vélfræðináminu lauk Hákon einnig rafvirkjanámi.
Árið 2000 giftist Hákon eftirlifandi eiginkonu sinni, Sunnevu Gissurardóttur, f. 31. október 1960, frá Seyðisfirði. Þau bjuggu á Ísafirði til ársins 2002, þegar þau fluttu til Grundarfjarðar.
Börn þeirra eru Guðrún Björk, f. 1993, og Gissur Þór, f. 1996. Með Guðnýju Svönu Harðardóttur, f. 1959, átti Hákon dótturina Ingibjörgu Ósk, f. 1981. Maki Ingibjargar er Hákon Víðir Guðmundsson. Þeirra börn eru: Hákon Fannar, f. 2009, Guðmundur Frosti, f. 2013. Fyrir átti Ingibjörg Ósk soninn Róbert Snæ, f. 1999. Hákon gekk dóttur Guðnýjar Svönu, Eddu Svandísi Einarsdóttur, f. 1978, einnig í föðurstað. Sambýlismaður Eddu Svandísar er Gylfi Bragason, f. 1980.
Hákon vann hjá Eimskipafélagi Íslands hf. 1975-80, Hafskipum hf. 1980-82, á Keflavíkurflugvelli 1982-84 og var vélstjóri á bátum og togurum megnið af sinni starfsævi. Lengst af var hann vélstjóri á togurum frá Ísafirði, þar sem Sunneva bjuggu. Síðustu æviárin var hann vélstjóri á rannsóknarskipinu Poseidon.
Útför hans verður gerð frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 30. ágúst 2015, kl. 14.

Elsku pabbi.
það var mjög erfitt að setjast niður og byrja að skrifa. Ekki af því að það sé ekki nóg af góðum minningum til að skrifa niður á blað heldur vegna þess að það gerir þá staðreynd að þú ert farinn svo hrikalega raunverulega. Tilhugsunin um að þú eigir ekki eftir að kíkja oftar í heimsókn milli sjóferða, eigir ekki eftir að hringja annan hvern dag eða jafnvel daglega og stundum nokkrum sinnum á dag, eins og þú oft gerðir, fær hjartavöðvana til að herpast saman. Sú hugsun að synir mínir fái ekki að njóta samvista við afa sinn sem þeir svo dýrka og dá er nánast óbærileg. Hákon Fannar sagði við mig í gær að englarnir eigi að skila afa því hann vilji hafa þig hjá sér. Ég vissi ekki hvernig ég átti að svara. Það á eftir að taka langan tíma fyrir hann að samþykkja það að afi sé ekki lengur hjá okkur. Þú varst mikið úti á sjó en þegar þú hittir strákana þá gafstu þig allan í afa hlutverkið. Ýmist með leik eða smá stríðni og prakkaraskap. Tilfinningatengslin sem mynduðust ykkar á milli finnst mér sýna best að það er ekki tíminn sem maður hefur sem skiptir máli heldur hvernig maður nýtir hann.
Það eru svo margar skemmtilegar sögur af þér að segja að það væri efni í margar bækur. Ég mun ekki vera með upptalningu á þeim hér en mig langar aðeins að tala um þann mann sem þú hafðir að geyma. Þú varst góð sál, góður pabbi og afi og konu þinni tryggur og trúr eiginmaður. Fjölskyldan skipti þig öllu máli og varst þú mjög heimakær en þú áttir tvö lögheimili, á sjónum og hjá Sunnu þinni. Þú varst mjög ungur farinn að kanna heiminn. Sem smástrákur léstu þig margoft hverfa úr garðinum frá foreldrum þínum svo að þau gripu til þess ráðs að merkja þig svo að þér yrði örugglega skilað í réttar hendur aftur.  Síðan þá ertu bókstaflega búinn að ferðast um allan heim og til baka. Til staða svo framandi og fjarri manni að maður getur varla borið fram nöfn þeirra. Enda kom það ekki á óvart þegar þið Sunna ákváðuð að gifta ykkur á víkingaskipinu Íslendingi á erlendri grundu. Þú varst duglegur í vinnu og kvartaðir aldrei. Jafnvel þó svo að líkaminn þinn væri ekki alltaf að vinna með þér, sérstaklega seinni árin. Og þrátt fyrir veikindin, alla verkina og þá staðreynd að þú værir greindur með ólæknandi krabbamein þá varstu svo ákveðinn í að ná þér nægilega vel á strik til að geta farið að vinna aftur. Það sýnir bara hversu mikinn lífsvilja þú hafðir og hversu mikið hörkutól þú varst. Og alla tíð hefur húmorinn og prakkaraskapurinn einkennt þig. Alltaf stutt í brandarana og hláturinn.  Það hélt sér alveg fram undir lokin. Í gegnum sársaukann gastu samt brosað og hlegið af vitleysunni í okkur, komið með skot og fyndnar athugasemdir. Það varst bara þú í hnotskurn. Yfir veikindatíma þinn var þér mikið í mun að skapa góðar minningar fyrir afastrákana þína. Leyfðir þeim að sitja í kjöltu þér og bruna um sjúkrahúsið í hjólastólnum, leika spidermanleik í gegnum face time forritið þar sem þið skutuð hvorn annan með Spiderman-vefum og reynduð hver í kapp við annan að vera með sem dramatískastan leik þegar vefurinn hitti ykkur. Þessar stundir lifa í minningunni.
Er ég sit hér og rifja upp liðna tíma er þakklæti mér efst í huga.
Ég er þakklát fyrir það hvað þú reyndist mér vel þegar ég mest þurfti á því að halda.  Þú bauðst mér að flytja vestur til þín og Sunnu þinnar og þar með tókst mig úr eineltisaðstæðum sem daglega brutu niður sjálfsímynd mína. Þannig gafstu mér von, nýtt upphaf, tækifæri til að byggja mig upp og geta orðið hamingjusöm. Fyrir það verð ég þér og Sunnu ævinlega þakklát.
Hvenær sem þú hafðir tök á því reyndir þú að hjálpa mér í lífinu, þú varst duglegur að hvetja mig áfram í námi og öðru og hafðir alltaf trú á mér jafnvel þó svo ég hefði það ekki sjálf. Mikilvægi menntunar barna þinna var þér alltaf ofarlega í huga, enda stóðst þú stoltastur manna þegar ég útskrifaðist sem stúdent og alla mína útskriftaráfanga síðan.
Þegar kom að  tilfinningamálum þá varstu ekki maður margra orða, þó svo það hafi breyst svolítið undir lokin. En þú sýndir alla tíð ást þína og væntumþykju í verki.  Þú sagðir eitt sinn við mig að þig langaði að eignast mörg börn því þú vildir ekki verða einmanna í ellinni. Þú náðir ekki að komast yfir í ellina en einmanna verður þú ekki því þú verður ávallt með okkur í hug og hjarta. Aldrei gleymdur, ávallt saknað!

Í lokin sendi ég endalausar þakkir til starfsmanna St. Franciskusspítalans í Stykkishólmi sem kom að umönnun þinni, fallegri sálir finnast varla. Einnig verð ég ævinlega þakklát henni Sunnu þinni, yfirlækninum eins og þú kallaðir hana, sem stóð við hlið þér eins og klettur frá fyrsta degi veikinda til þess síðasta.
Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.

Ingibjörg Ósk Hákonardóttir.