Torfi fæddist 22. mars 1923 á Heydalsá í Strandasýslu og ólst þar upp. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 21. nóvember 2015.
Foreldrar Torfa voru Guðbrandur Björnsson Halldórssonar frá Smáhömrum, f. 14.5. 1889, d. 2.7. 1946, oddviti og útvegsbóndi á Heydalsá, og Ragnheiður Guðmundsdóttir Péturssonar í Ófeigsfirði, f. 24.8. 1894, d. 24.10. 1972, húsmóðir á Heydalsá.
Systkini Torfa eru: Guðmundur, f. 26.11. 1915, d. 7.12. 1950, útvegsbóndi á Heydalsá, Björn Halldórs, f. 8.8. 1917, d. 7.12. 1950, útvegsbóndi á Heydalsá, Sigrún, f. 18.9. 1918, d. 18.5. 1978, húsmóðir í Reykjavík, Sverrir, f. 26.3. 1921, d. 22.7. 2012, bóndi á Klúku og verslunarmaður, Matthildur Ása, f. 26.8. 1926, húsmóðir á Smáhömrum, Vigdís, f. 24.5. 1929, d. 21.9. 2005, húsmóðir á Reyðará í Lóni, Aðalbjörg, f. 10.11. 1930, d. 17.4. 1998, húsmóðir í Reykjavík, Bragi, f. 21.9. 1933, bóndi á Heydalsá, Sigurgeir, f. 13.5. 1936, d. 10.4. 1989, bóndi á Heydalsá.
Torfi kvæntist 15.6. 1957 Aðalbjörgu Albertsdóttur, f. 1.5. 1934, fyrrv. skólaráðskonu. Hún er dóttir Alberts Valgeirssonar og Óskar Samúelsdóttur frá Bæ í Árneshreppi.
Börn Torfa og Aðalbjargar eru:
Björn Guðmundur, f. 14.11. 1956, bóndi á Melum í Árneshreppi, kvæntur Bjarnheiði Fossdal og eiga þau fimm börn. 2) Óskar Albert, f. 26.5. 1958, framkvæmdastjóri á Drangsnesi, kvæntur Guðbjörgu Hauksdóttur sjúkraliða og eiga þau fimm börn. 3) Snorri, f. 22.7. 1959, vélvirki í Reykjavík, kvæntur Ingu Dóru Guðmundsdóttur og eiga þau þrjú börn en fyrir átti Snorri einn son með Erlu Ríkharðsdóttur.
4) Ragnar, f. 18.4. 1963, trésmíðameistari í Reykjavík, kvæntur Ernu G. Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn. 5) Fríða, f. 4.7. 1965, kennari í Reykjavík, gift Jón Magnúsi Kristjánssyni framkvæmdastjóra og eiga þau fjögur börn en auk þess á Jón eina dóttur. 6) Guðbrandur, f. 18.12. 1966, trésmíðameistari í Kópavogi, kvæntur Dóru Björgu Jónsdóttur og eiga þau þrjá syni.
Hann stundaði barnaskólanám í Heimavistarskólanum á Heydalsá, lauk prófi frá Reykjum í Hrútafirði 1939, gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar 1940 og kennaraprófi frá KÍ 1951.
Torfi var farkennari í Hrófbergsskólahverfi í Steingrímsfirði 1941-44, Kirkjubóls- og Fellsskólahverfi 1944-48 og 1953-55, var stundakennari í Gagnfræðaskólanum við Hringbraut í Reykjavík 1951-52, kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1952-53 og skólastjóri við Heimavistarskólann á Finnbogastöðum í Árneshreppi 1955-83. Hann flutti þá til Reykjavíkur og starfaði við aðalbanka Búnaðarbankans 1984-93. Torfi gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina.
Torfi skrifaði m.a. sögur skólanna á Heydalsá, Finnbogastöðum og Drangsnesi og fleiri þætti í byggðasögu Strandasýslu, Strandir I-III. Þá hefur hann ritað endurminningar sínar, Strandamaður segir frá, sem Vestfirska forlagið gaf út í tveim bindum, 2000 og 2001.
Útför Torfa fer fram frá Digraneskirkju í dag, 30. nóvember 2015, klukkan 13.

Þá er minn kæri tengdafaðir Torfi Guðbrandsson allur. Hann var tilbúinn fyrir hvíldina, hafði lifað sínu lífi til fullnustu.

Ég kom fyrst inná heimili þeirra hjóna að Bogahlíð 12 í Reykjavik um haustið 1985, þá nýbúinn að kynnast einkadóttur þeirra sem síðan tók mig sem eiginmann sinn. Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast og  umgangast þennan mæta mann í  hartnær 30 ár. Samskiptin við hann voru í einu orði mannbætandi.

Torfi hafði til að bera marga góða kosti og hafði mikil áhrif á fólkið í kringum sig, hvort sem það voru samferðamenn,  nemendur hans í gegnum tíðina eða hans nánustu. Reynsla  æskuáranna markaði sterkan svip á líf hans enda voru uppeldisár hans frábrugðin því sem flestir eiga að venjast.  Hann var fæddur í sveit og þurfti sem lítið barn að dvelja í fimm ár á sjúkrahúsi vegna berklaveiki, langt frá foreldrum og systkinum. Á tímabili var honum vart hugað líf, en berklaveikin skildi eftir sig bæklun sem gerði miklar kröfur til starfsorku hans og lífsgleði.

Torfi var myndarmaður með skörp andlitseinkenni, vel greindur og mælskur, fágaður í framkomu, gæddur miklum sjálfsaga og tónelskur með afbrigðum. Heilsteyptari manneskju  hef ég varla kynnst. Hann var foringi og kunni að gefa skipanir og hefði eflaust sómt sér vel í mörg fleiri störf en kennslu. Hann hafði svo margt til brunns að bera og ég hugsa að eiginleikar og skapgerð hans hefðu t.d. sómt hvaða enskum lávarði vel.

En hann var kennari í hjarta sínu og því starfi sinnti hann af mikilli kostgæfni og hann hætti reyndar aldrei að kenna.  Fram á síðasta dag veitti hann leiðsögn bæði stórum sem smáum fjölskyldumeðlimum. Þótt sjón hans hafði hrakað hin síðari misseri hlustaði hann á útvarp og fylgdist vel með og átti til að spyrja áleitinna spurninga. Þá var eins gott að vera með á nótunum, stundum var eins og skólastjórinn væri mættur. Hann var mér og ég hygg mörgum öðrum nokkurs konar lærdómsfaðir. Hann miðlaði með orðum en ekki síður með að sýna fordæmi með sinni eigin hegðun og framkomu.

Við fjölskyldan eigum margar góðar minningar frá þriggja vikna heimsókn þeirra hjóna til okkar í Tokyo árið 1995. Hann var þá 72 ára, þetta var langt ferðalag en þau hjónin settu það ekki fyrir sig og undu sér vel í fjarlægju landi. Torfi fór reglulega í sínar gönguferðir og skilaði sér alltaf aftur þótt stundum hafi hann villst örlítið af leið en fékk þá aðstoð hjálpsamra heimamanna. Ég dáðist að dugnaði og áræðni hans. Margir í hans sporum hefðu haldið kyrru fyrir og treyst  á aðra til að fylgja sér. Hann hnaut um það að í stærstu borg heims væru minni strætisvagnar en í Reykjavík og sá strax möguleika til sparnaðar fyrir SVR með því að taka minni bíla í notkun utan háannatíma. Svona var hann Torfi, sífellt vakandi og  hugsandi um það sem betur mætti fara. Ferðuðust þau hjón með okkur, m.a. til Kyoto og fannst það eðlilega tilkomumikið enda ansi langur vegur frá Árneshreppi á Ströndum til hinnar fornu höfuðborgar Japans. Það var einmitt í Tokyo að Torfi hóf að skrifa endurminningar sínar sem síðan voru gefnar út í tveimur bindum nokkrum árum seinna. Þar fann Torfi næði til að byrja, því fáar voru gestakomur og ekki skildi hann það sem talað var í sjónvarpi eða skrifað í blöðin.

Torfi og Alla voru ekki fjárhagslega efnuð umfram annað venjulegt fólk, en þeim tókst einstaklega vel að byggja upp mikið ríkidæmi í börnum sínum og hafa svo sannarlega notið ávaxtanna vel. Afkomendur með börn þeirra í fararbroddi hafa sinnt foreldrum sínum á aðdáunarverðan hátt og síðustu ár leið varla sá dagur að ekki dytti einhver inn í heimsókn. Fjölskyldan er enda einstaklega samhent, hópurinn orðinn stór, sex börn, 24 barnabörn og nú þegar komin 19 barnabarnabörn. Það var ætið glatt á hjalla þegar fólkið hans Torfa kom saman.  Að taka lagið var skilyrði á öllum fjölskyldusamkomum, stórum sem smáum. Jafnvel hinir minna lagvísu komust ekki hjá því að hrífast með, það var aldrei leiðinlegt í kringum Torfa og Öllu. Ekki fór framhjá neinum að  þau hjónin voru alla tíð einstaklega samhent og má með sanni segja að þau hafi verið ástfangin upp fyrir haus allt til loka.

Að leiðarlokum ber að þakka fyrir samfylgdina. Eftir standa sterkar, góðar og lærdómsríkar minningar. Torfi Guðbrandsson hefur skilað góðu ævistarfi, eins og góður skipstjóri hefur hann aflað vel og skilað sinni áhöfn heilli í höfn og þeir sem hafa átt því láni að fagna að vera honum samferða í lífinu eru sannarlega ríkari af þeirri samfylgd.

Far þú í friði minn kæri tengdafaðir.

Jón Magnús Kristjánsson.