Oddný Kristín Þorkelsdóttir (Abba) fæddist í Borgarnesi 18. ágúst 1920. Hún lést eftir skamma sjúkrahúslegu 12. mars 2017.
Hún var elsta barn hjónanna Þorkels Teitssonar símstöðvarstjóra í Borgarnesi, f. 1891, d. 1949, og konu hans Júlíönu Sigurðardóttur frá Akranesi, f. 1895, d. 1976. Börn þeirra, auk Oddnýjar, eru Erna, f. 1924, d. 1999, Þórunn, f. 1926, d. 1977, Jón Teitur, f. 1937, d. 1945, og Þorkell, f. 1941. Þann 18. desember 1949 gekk Oddný að eiga Jón Kr. Guðmundsson pípulagningameistara, f. 2. mars 1923, d. 19. maí 2004. Hann var sonur hjónanna Guðmundar Guðmundssonar og Solveigar Ólafsdóttur á Núpi í Haukadal, Dalasýslu. Jón og Oddný áttu þrjú börn. Þau eru: 1) Trausti, f. 5. júní 1951, 2) Oddný Sólveig, f. 10. desember 1952. Maður Oddnýjar er Guðmundur Hallgrímsson, f. 1950. Búa þau á Hvanneyri og eiga tvö börn: a) Oddnýju Kristínu, f. 1973, hún er gift Borgari Páli Bragasyni, f. 1978. Börn þeirra eru tvíburarnir Guðmundur Bragi og Sólveig Kristín. b) Jón Kristinn, f. 1979, sem kvæntur er Valdísi Ásgeirsdóttur, f. 1979. Dætur þeirra eru tvær, Bjargey og Fanney María. 3) Júlíana, f. 19. desember 1959. Maður hennar er Eiríkur Ólafsson, f. 1958, og búa þau í Borgarnesi og eiga tvö börn, a) Hallberu, f. 1984, og b) Trausta, f. 1991, unnusta hans er Eva Linda Gunnarsdóttir, f. 1993.
Oddný Kristín ólst upp í foreldrahúsum og varð gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1939. Eftir námsdvöl á húsmæðra- og alþýðuskólum í Svíþjóð eftir stríð vann hún um skamma hríð í Reykjavík, en starfaði þó lengst af á símstöðinni í Borgarnesi og í Kaupfélaginu. Eftir að hún giftist vann hún um skeið hjá Sparisjóði Mýrasýslu og svo lengi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Einnig sá hún um fjármál pípulagningareksturs Jóns um meira en 20 ára skeið. Hún lærði ung á píanó og var hljóðfærið hennar líf og yndi upp frá því. Hún var mjög virk í tónlistarlífi í Borgarnesi og Borgarfjarðarhéraði. Lék á fjölmörgum skemmtunum um allt héraðið bæði ein og sem undirleikari einsöngvara og sönghópa sem og á leiksýningum – fyrstu árin stundum á gítar, en píanóið var samt hennar aðalhljóðfæri alla tíð. Hún var um skeið organisti í Borgarneskirkju og lék einnig oft á orgel í ýmsum kirkjum héraðsins væri eftir því leitað. Hún kenndi einnig á píanó við Tónlistarskóla Borgarfjarðar fyrstu ár skólans. Setti hljóðfærasláttur hennar mikinn svip á heimilið alla tíð. Oddný var árum saman formaður Félags eldri borgara í Borgarnesi. Þegar hún andaðist var hún orðin elst allra innfæddra Borgnesinga og mundi tímana tvenna þar í sveit.
Útför Oddnýjar fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 24. mars 2017, kl. 13.

Elsku besta amma mín er fallin frá eftir langa og góða ævi. Amma var mér afar kær og hún var stór hluti af mínu lífi allt frá minni fyrstu tíð þegar ég fæddist í húsinu hennar í Borgarnesi. Hún var einstaklega vel gefin kona, góð, skemmtileg, gáfuð og hæfileikarík. Hún  hugsaði alla tíð vel um sitt fólk og var mikil fjölskyldumanneskja sem og traustur vinur. Hún hugsaði líka alltaf vel um heilsuna og fór mikið í göngutúra. Eftir að afi dó árið 2004 bjó hún ein í húsinu sínu við Skúlagötu og stundum að vetri til var hægara sagt en gert fyrir hana að komast niður brekkuna við húsið sitt eða tröppurnar sem fara þurfti til að komast í göngutúr. Mér er sérstaklega minnistætt hvernig hún leysti þann vanda þegar hún komst ekki frá húsinu sínu en vildi hreyfa sig, þá fór hún og gekk 10 hringi á bílaplaninu og þar með var hreyfing dagsins í höfn. Hún var líka einstaklega gestrisin kona sem lagði mikið upp úr því að gestir hennar fengju góðar veitingar og færu ekki svangir burt. Pönnukökurnar hennar voru bestu pönnukökur í heimi og hún bakaði í gegnum tíðina mikið af þeim. Í gamla daga prjónaði hún líka mikið og ég man vel eftir því hvað ég fékk oft fallegar prjónaðar peysur og aðrar flíkur frá henni þegar ég var barn.

Þegar ég var lítil var alltaf gaman að fara í pössun til ömmu og afa og stundum gisti ég hjá þeim. Þá var regla að við horfðum á gamanmynd saman og það var svo skemmtilegt því þá sátum við öll saman og skellihlógum. Við ferðuðumst líka mikið með þeim og mér fannst það alltaf svo skemmtilegt, sérstaklega ef við fórum í sumarbústaði og þau voru með. Amma og afi spiluðu mikið kínverska skák og auðvitað spilaði öll fjölskyldan með. Ég spilaði síðast kínverska skák við ömmu núna um síðustu áramót en þrátt fyrir að hún hafi ekki verið við sérstaklega góða heilsu spilaði hún og fór létt með það.

Píanóið hennar ömmu spilaði stórt hlutverk í lífi ömmu. Hún spilaði á píanóið af þvílíkri snilld nánast allt fram til síðasta dags. Yfir jólahátíðir spilaði hún alltaf mikið fyrir okkur fjölskylduna og það var þvílík unun að hlusta á hana spila. Þegar börnin mín voru yngri spilaði hún fyrir þau barnalög og þau sungu og dönsuðu.

Amma var mikill lestrarhestur og las nánast allt sem hún komst yfir að lesa. Þá skipti ekki öllu máli hvort lesefnið var á íslensku, ensku, dönsku eða sænsku, hún las bækur á öllum þessum tungumálum. Hún var stundum að lesa margar bækur í einu, hafði eina létta á náttborðinu, aðra þunga á eldhúsborðinu svo stundum enn eina sem hún las í hægindastólnum sínum. Stundum var hún búin að lesa bækur áður en þær voru gefnar út hér á Íslandi því hún fékk þær í gegnum netið og las þær þá bara á ensku. Hún fylgdist líka alltaf vel með fréttum og því sem var að gerast í þjóðfélaginu.

Fyrir nokkrum árum fékk amma sér tölvu. Hún vildi fá að fylgjast með því sem var að að gerast og með tölvunni var það auðvelt. Fingrasetningu kunni hún vel frá fyrri tíð og gat hún því skrifað bréf og ýmsa texta á tölvuna sína. Hún óskaði eftir að fá kennslu á helstu fréttamiðlana og á facebook hafði hún gaman af að skoða myndir og fylgjast með fólkinu sínu.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að hafa frábæru ömmu mína svona lengi í mínu lífi og finnst gott að börnin skyldu fá tækifæri til að kynnast henni jafn vel og þau gerðu. Ég kveð hana með sorg og söknuði en á sama tíma er ég þakklát fyrir allt sem hún kenndi mér og fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um hana. Það verður skrítið að fara í Borgarnes og kíkja ekki til ömmu í kaffi. Nú mun heldur enginn kalla mig Nöfnu sína framar. Hún verður þó alltaf með mér í hjarta mínu og minningarnar um hana munu ylja mér til æviloka.

Ég kveð ömmu mína með þakklæti og söknuði



Oddný Kristín Guðmundsdóttir.