Pulsu- og pekanpartí

Matarklúbburinn Skagfjörð
Matarklúbburinn Skagfjörð Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, er í líflegum matarklúbbi sem nefnist Skagfjörð vegna misskilnings bróður hennar sem einnig er í klúbbnum knáa.

Meðlimir klúbbsins eru sex og tengjast allir Sjálfstæðisflokknum með einum eða öðrum hætti. „Inga Hrefna er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Þórdís Kolbrún aðstoðarmaður innanríkisráðherra, Magnús bróðir er framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokksins og starfsmaður í Valhöll og ég er ritari flokksins,“ segir Áslaug, en hún fékk inngöngu í klúbbinn á síðari stigum.

„Eftir að ég varð ritari flokksins fékk ég boð í hópinn enda vantaði bróður minn maka í klúbbinn og tilvalið að fá systur sína inn. Matarklúbburinn heitir síðan Skagfjörð út af þeim misskilningi bróður míns að Þórdís héti Skagfjörð en ekki Reykfjörð og í honum eru líka makar Ingu og Þórdísar, þeir Þorgeir og Hjalti.“

Auk fullorðna fólksins var Marvin Gylfi sonur Þórdísar og Hjalta, en Þórdís var einmitt ólétt að sínu öðru barni, sem fæddist aðeins nokkrum klukkutímum eftir dögurðinn. Það mætti því segja að það fjölgi hratt í matarklúbbnum Skagfjörð.

Spurð um leikni sína í eldhúsinu segist Áslaug ekki hafa mikið látið á það reyna. „Við höfum skipst á að elda í klúbbnum en Inga Hrefna og Þorgeir eru yfirburðafólk í þeim efnum. Ég elda ekki oft, svo það hefur aldrei reynt á það, kann að elda dásamlega tvo rétti eða svo, en ég baka mun oftar og er orðin lunkin við að skreyta kökur. Það mætti halda að það væri krafa til að komast í forystu Sjálfstæðisflokksins að kunna að skreyta köku.“

Það er ekki úr vegi að spyrja Áslaugu hvort ekki hafi komið til greina að stofna humarklúbb eftir humarumræðuna miklu hér um árið? „Það hefur ekki komið til tals en það er frábær hugmynd. Humar er auðvitað mjög góður matur þótt ég borði hann ekki oft.“

Áslaug er ekki matvönd og segist í raun borða allt þótt hún forðist sviðasultu eftir fremsta megni. Inga Hrefna deilir hér með okkur girnilegum uppskriftum sem tilvaldar eru í dögurð.

Pekankaka með karamellu.
Pekankaka með karamellu. Árni Sæberg

Pekanhnetupartíbitar

4-5msk. smjör

100 g suðusúkkulaði

3 egg

3 dl sykur (í viðleitni minni til að minnka sykurnotkun heimilisins minnka ég þetta um helming)

1,5 dl hveiti

1 tsk. salt

100 g pekanhnetur

Smjör og súkkulaði brætt saman um leið og egg og sykur eru þeytt saman. Smjörblöndunni er bætt út í eggjablönduna og að lokum er hveiti og salti blandað við. Bakað í 15-18 mín við 180 °C. Á meðan kakan er að bakast þarf að búa til karamellu.

Karamella

4msk. smjör

1 dl púðursykur

2 msk. rjómi

Smjör og púðursykur soðið saman í 2-5 mínútur og að lokum er rjóminn settur út í. Eftir 15 mínútur í ofninum er kakan tekin út og karamellunni og pekanhnetunum skellt ofan á. Síðan baka ég þetta í korter í viðbót og sker svo í litla bita.

Beikonrúllur

(Sérstaklega ætlaðar þeim sem drukku mikið hvítvín eða MangóTangó kvöldið áður)

1 samlokubrauð

1 bréf beikon

Brauðostur í sneiðum

1 dós skinkumyrjuostur

Ég byrja á því að fjarlægja endana af samlokubrauðinu. Því næst smyr ég sneiðarnar með skinkumyrju og sker þær svo í tvennt. Svo er osti skellt ofan á brauðið og beikoninu rúllað utan um. Bakað í ofni á 200 gráðum í 20 mínútur.

Pulsupinnar henta vel í dögurð.
Pulsupinnar henta vel í dögurð. Árni Sæberg

Bruchettur

1 snittubrauð

1 dós piccolo-tómatar

3 hvítlauksrif

1 búnt ferskt basil

Maldonsalt

Ferskur mozzarella-ostur

Tómatar skornir afar smátt og basil klippt niður. Hvítlauksrif marin mjög smátt og öllu blandað saman í skál og látið standa í ísskáp í nokkra tíma. Snittubrauð skorið niður í þunnar sneiðar og steikt upp úr góðri olíu á pönnu. Maldonsalti sáldrað á brauðið á pönnunni. Tómatablöndunni er svo smurt ofan á brauðið og osturinn settur þar ofan á.

Tómatbrúsettur með ferskum basil.
Tómatbrúsettur með ferskum basil. Árni Sæberg
Klassískir réttir í dögurð. Beikon, egg og pulsur.
Klassískir réttir í dögurð. Beikon, egg og pulsur. Árni Sæberg
Súkkulaðisósa og ávextir klikka seint.
Súkkulaðisósa og ávextir klikka seint. Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert