Jarðarberja- og súkkulaðiís læknisins

Rjómaís með ferskum jarðaberjum og jarðaberjakonfekti.
Rjómaís með ferskum jarðaberjum og jarðaberjakonfekti. laeknirinnieldhusinu.com

„Allur alvöruís er gerður úr rjóma - auðvitað má líka setja örlítið af mjólk en rjómaís er alltaf langbestur! Og þessi ís er algerlega himneskur - hann er svo góður að meira að segja eiginkona mín, Snædís, sem borðar aldrei ís, fékk sér tvisvar á diskinn," segir Ragnar Freyr í jólalegri ísfærslu á blogginu sínu. 

750 ml rjómi
6 egg
150 g sykur
1 vanillustöng
250 g jarðarber
40 jarðarberjakonfektmolar 

Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum. Setjið eggjarauðurnar í skál. 

Blandið sykrinum saman við og hrærið vandlega saman. Setjið til hliðar í augnablik á meðan þið sinnið öðrum hráefnum sem eiga að fara í ísinn. 

Næst er að stífþeyta eggjahvíturnar. Það hjálpar að setja smá sykur saman við þær - einhver sagði mér að þær myndu verða betri við það - en ég sel það ekki dýrara en ég keypti ! 

Svo er það auðvitað rjóminn - en hann er lykilatriði í þessari uppskrift og ástæða þess að fólk biður um ábót. Takið hann beint úr kælinum og þeytið saman. Gætið þess að breyta honum ekki í smjör. 

Næst er svo að saxa jarðarberin í litla bita. 

Svo konfektið - það er eðlilegt að kokkurinn taki smá toll af konfektinu - tíu prósent þykir eðlilegt á flestum heimilum. Ég notaði jarðarberjakonfektmola frá Nóa Síríus - en þeir eru uppáhaldið mitt (auk piparmyntukonfektsins). Hvernig fólk nálgast 40 mola - þarf bara að róta í gegnum nokkra kassa hjá vinum og vandamönnum. Sé viljinn fyrir hendi er allt mögulegt. 

Svo er lítið annað en að blanda ísnum saman. Hrærið fyrst rjómann saman við eggjarauðurnar, svo eggjahvíturnar. 

Því næst skafið þið innan úr einni vanillustöng og hrærið vandlega saman við ísinn. Þarna er maður kominn með vanilluís - og í raun hægt að stöðva á þessum tímapúnkti - eða halda áfram með hvaða annað hráefni sem er.

Ég valdi að blanda jarðarberjunum og konfektinu vandlega saman við.

Svo var ísnum skellt í ísskálina (sem þarf að geyma í frosti í 15 tíma áður en hún er tekin í notkun). Ísinn er svo hrærður í 15-20 mínútur þangað til að hann verður tilbúinn. 

Hægt er að gæða sér á honum þá og þegar eða setja hann í mót og geyma í frysti. 

Það eru mörg ráð við að ná ís úr forminu. Ekki gera eins og ég gerði og setja formið í heitt vatnsbað í 20 sekúndur - þá byrjar ísinn að bráðna (mjög gott - veit það næst) - en það hefur engin áhrif á bragðið - sem er fullkomlega geðveikt. 

Svo setur maður meira að súkkulaðisósu á ísinn (bara bræða saman gott súkkulaði og rjóma - koníak sé maður í stuði). 

Svo er bara að knúsa sína nánustu - hvort sem það er fyrir jól eða áramót! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert