Heimilislegt fetaostsbuff með sósu og lauk

Dröfn elskar heimilislegan mat og er snillingur í að gera …
Dröfn elskar heimilislegan mat og er snillingur í að gera huggulegan heimilismat. eldhussogur.com

Dröfn á Eldhúsögum.com er snillingur í ljúfum heimilismat sem nærir líkama og sál eftir langan vinnudag. Þessi girnilega uppskrift hittir unnendur hakkabuffs beint í hjartastað enda er gott buff með brúnni sósu, kartöflum og sultu skotheldur matur. 

„Ég tók eftir því um daginn að gömul uppskrift héðan af Eldhússögum er farin á flug á Facebook, Ostafylltur kjöthleifur, henni hefur verið deilt nokkur þúsund sinnum upp á síðkastið. Ég hef ekki búið til þennan rétt í nokkur ár, mundi ekkert hvernig hann bragðaðist og lék forvitni á að vita hvers vegna uppskriftin væri orðin svona vinsæl. Varla gat það verið vegna myndanna því þær eru ekkert voðalega girnilegar, það er nefnilega frekar erfitt að taka girnilegar nautahakksmyndir! Ég prófaði að elda þennan rétt í kvöld og það rifjaðist upp hversu góður hann er en ekki síður hversu einfaldur hann er. Ég gerði mér lífið enn auðveldara og sleppti lauknum í hakkinu, kryddaði bara meira í staðinn. Sósan er ægilega góð en ég bætti um betur og setti nautakraft í sósuna sem mér fannst gera mikið, ég uppfærði uppskriftina og bætti inn nautakraftinum.

Nautahakk er svo sniðugt því það er hægt að elda svo ótal mismunandi rétti úr því. Um daginn gerði ég þessi fetaostsbuff með hrikalega góðri lauksósu, ég elska svona heimilismat eða „husmanskost” eins og Svíarnir kalla hann!“

Heimilislegt og gott.
Heimilislegt og gott. eldhussogur.com
Uppskrift:
800 g nautahakk
smjör til steikingar
1 egg
2/3 dl brauðmylsna
2-3 hvítlauksrif, pressuð
2 tsk. oreganokrydd
150 g fetaostur (kubbur)
2 msk. fersk blaðsteinselja, söxuð smátt
salt og pipar
Sósa:
2 – 3 gulir laukar, skornir í sneiðar
ca. 30 g smjör
2 msk. hveiti
3 dl vatn
3 dl rjómi
salt og pipar

Ofn hitaður í 160 gráður.
Hráefnunum fyrir buffin er blandað vel saman í höndunum og mótuð ca. 7 buff.
Smjör brætt á pönnu og buffin steikt vel báðum megin þar til góð steikingarhúð hefur náðst. Þá er buffin færð yfir í eldfast mót og höfð inni í 180 gráða heitum ofni á meðan sósan er útbúin.

Smjörinu fyrir sósuna er því næst bætt út á sömu pönnu. Þá er laukurinn steiktur á pönnunni við fremur lágan til meðalhita í korter (því lengur því betra), hrært reglulega í lauknum. Því næst er hveitinu sáldrað yfir laukinn og vökvanum bætt út í smátt og smátt á meðan hitinn er hækkaður undir pönnunni og hrært stöðugt. Kryddað með salti og pipar. Ef sósan er of þunn er hún þykkt með sósujafnara.

Buffin eru borin fram með lauksósunni, soðnum kartöflum eða kartöflumús, grænmeti og góðri sultu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert