Harðfiskssnittur, rauðrófu- og ostasalat og fleira gúmmelaði

Rauðrófusalat með osti og eplum.
Rauðrófusalat með osti og eplum. Eggert Jóhannesson

Óperan Mannsröddin var frumsýnd á vegum Íslensku óperunnar í Kaldalóni í Hörpu í gærkvöldi. Matarvefurinn fékk að mynda góðgætið sem þær stöllur gæddu sér á, á milli æfinga fyrr í vikunni.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir verkinu, sem er tilraunaverkefni þar sem leikriti og óperu er blandað saman. „Í þessari uppfærslu er leiktextanum sem ekki er í óperunni skeytt inn í óperuna á mjög svo nýstárlegan máta svo út kemur leik- ópera sem flutt er á íslensku og frönsku. Það er einungis ein sýnileg persóna í verkinu en það er Elle og túlkum við Elva Ósk Ólafsdóttir hana báðar þannig að Elva leikur á íslensku en ég syng á frönsku,“ segir Auður Gunnarsdóttir söngkona.

Auður syngur fyrir Elle en Elva leikur hana.
Auður syngur fyrir Elle en Elva leikur hana. Eggert Jóhannesson

„Þetta er algerlega ný nálgun fyrir okkur báðar. Við rennum saman í eina persónu. Elle er að tala í símann og er viðmælandinn fyrrverandi ástmaður hennar, sem nú er kominn með nýja kærustu. Hann er ósýnilegur en þó mjög fyrirferðarmikill í tónlistinni. Símtalið er uppgjör Elle við þennan mann og því mjög tilfinningaþrungið. Eva Þyrí Hilmarsdóttir leikur á píanó.“

Auður segist almennt ekki borða mikið fyrir sýningar, helst nokkrum tímum fyrir og þá eitthvað létt. „Margir sem ég þekki vilja fara út að borða eftir sýningar en ég hef ekki fundið mig í því. Þetta er mjög misjafnt eins og gengur. Það loðir þó við óperusöngvara að vera miklir matmenn og ég get alveg tekið undir það.“

Auður er mikill matgæðingur. Henni finnst gaman að bjóða í mat og þá er rólegur djass gjarnan settur á fóninn. „Uppskriftina að hraunfiskinum fékk ég hjá miklum tenórsöngvara, Jóni Rúnari Arasyni en hann er gríðarlega mikill og góður kokkur. Hinn réttinn, rauðrófusalatið, smakkaði ég fyrst á veitingastaðnum í Húsafelli og féll alveg fyrir því.“

Hraunfiskurinn gómsæti.
Hraunfiskurinn gómsæti. Eggert Jóhannesson

Rauðrófusalat Auðar

1-3 rauðrófur (eftir stærð) best er að nota vakúmpakkaðar lífrænar rauðrófur sem fást í Nóatúni eða blanda saman hrárri og niðursoðinni til helminga
2-3 græn epli
1 Auður eða Dalahringur (ostur)
½ bolli kasjúhnetur (eða eftir smekk)
Safi úr hálfri sítrónu

Rauðrófur og epli skorin niður í hæfilega bita og blandað saman. Sítróna kreist yfir. Hnetum blandað saman við. Ostur skorinn í þunnar sneiðar og blandað saman við. Skreytt með fersku kóríander

Girnilegt rauðrófusalat með eplum, hnetum og osti.
Girnilegt rauðrófusalat með eplum, hnetum og osti. Eggert Jóhannesson

Hraunfiskur a la Jón Rúnar

Hrökkbrauð smurt með smjöri eða smjörva (Wasa frukost eða sesam)
Harðfiskur (flök)
Grásleppukavíar (rauður og svartur)

Hrökkbrauð skorið niður í litla ferninga.
Harðfiskur klipptur í passlega bita og settur ofan á.
Skreytt með rauðum og svörtum grásleppukavíar.

Hollt og næringarrík bókhveitisalat.
Hollt og næringarrík bókhveitisalat. Eggert Jóhannesson

Linsubauna- og bókhveitisalat – stútfullt af hollustu!

4 dl grænmetissoð
1 dl grænar linsubaunir
1 dl bókhveitigrjón
2 msk. ólífuolía
2 laukar
2 stilkar sellerí
3 gulrætur
4 hvítlauksgeirar

Kryddblanda:
1 tsk. majoram
1 tsk. timjan
Rifinn börkur af sítrónu (heil til hálf, fer eftir stærð)
Handfylli af ferskri steinselju, söxuð
1 msk. malað kúmmin
1 tsk. rauðar chilli-flögur
½ tsk. malaðar kardemommur
1 egg

Dressing:
5 msk. ólífuolía safi úr einni sítrónu
salt og pipar

Aðferð:
Hitið grænmetissoðið að suðu og setjið linsubaunirnar í pottinn, lækkið hitann og hrærið þar til þær eru mjúkar (15-20 mín).
Sigtið en geymið vökvann. Setjið linsurnar í stóra skál. Sjóðið bókhveitigrjónin þar til þau eru stinn (u.þ.b. 15 mín).
Hitið olíu í þykkbotna potti, saxið laukinn og steikið þar til hann er glær, bætið þá sellerí, gulrótum og hvítlauk og haldið áfram að elda þar til gulrætur verða mjúkar. Hrærið grænmetisblöndunni út í linsurnar.
Blandið kryddblöndunni saman og setjið til hliðar. Hrærið eggið upp í skál og blandið saman við bókhveitigrjónin þegar þau eru tilbúin beint í pottinum og látið eggið setjast í grjónin.
Bætið þá vökvanum úr linsubaununum saman við og hrærið saman. Blandið bókhveitinu og linsubaununum saman og síðan kryddblöndunni út í ásamt salt og pipar eftir smekk. Setjið dressingu yfir og blandið vel. Berið fram volgt eða kalt.

Þurrkaðir ávextir og hnetur eru tilvalið millimál milli æfinga.
Þurrkaðir ávextir og hnetur eru tilvalið millimál milli æfinga. Eggert Jóhannesson
Eva, Auður og Elva mynda sýningarhópinn en Eva spilar á …
Eva, Auður og Elva mynda sýningarhópinn en Eva spilar á píanó, Auður syngur og Elva leikur. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert