Nýr mexíkóskur veitingastaður með glerþaki

Taco Pescado, fiski-taco á El Santo.
Taco Pescado, fiski-taco á El Santo. Mynd/ El Santo

Veitingastaðurinn El Santo opnaði fyrir tveimur vikum síðan á Hverfisgötunni í Reykjavík og vinsældir staðarins eru framar öllum vonum. Greinilegt þykir að hefðbundinn mexíkóskur matur höfði mikið til borgarbúa. 

„Við tókum við húsnæðinu í haust en fyrir var annar staður sem við tókum í yfirhalningu. Auk þess gjörbreyttum við matseðlinum undir forystu Agnars Agnarssonar, sem er með mikla ástríðu fyrir mexíkóskri matargerð segir Ása Geirsdóttir, rekstrarstjóri og meðeigandi ásamt Björgólfi Takefusa.

Agnar Agnarsson, kokkurinn á El Santo, ásamt Ásu Geirsdóttur sem …
Agnar Agnarsson, kokkurinn á El Santo, ásamt Ásu Geirsdóttur sem er annar eigandi El Santo. Mbl.is/ Kristinn Magnússon

Það sem skipti sköpum var að fá frábæran kokk til okkar, sem er með mikla ástríðu fyrir mexíkóskri matargerð,“ segir Ása Geirsdóttir, sem er rekstrarstjóri en eigandi staðarins er Björgólfur Takefusa. „Agnar bjó lengi í Bandaríkjunum þar sem hann kynntist þessari matargerð. Á matseðlinum eru klassískir mexíkóskir réttir. 

Matseðillinn er einfaldur og leggur mikið upp úr hefðbundnum tacos. Hægt er að fá svína-, kjúklinga-, fiski- eða vegan-tacos en einnig er boðið upp á gorditas sem eru fylltir djúpsteiktir bögglar, empanizados, sem eru djúpsteiktir jalapeno, auk habanero og elote sem er heill grillaður maís og nýtur mikilla vinsælda. „Við búum til allt frá grunni, erum með okkar eigin hotsauce, maístortillur og svo erum við  með vegan og glútenfría valkosti.  Við notum meðal annars vistvænan kjúkling frá Litlu gulu hænunni og eins mikið íslenskt grænmeti og við getum. Það líður öllum vel þegar þeir fara héðan út,“ hlær Ása. 

Elote – heill grillaður maís er mjög vinsæll réttur.
Elote – heill grillaður maís er mjög vinsæll réttur. Mynd/ El Santo

Á fimmtudagskvöldum og um helgar er líf og fjör á El Santo en mikið er lagt upp úr góðum plötusnúðum sem byggja upp góða stemmningu þegar líður á kvöldið og er stefnan einnig sú að vera stundum með lifandi tónlist.

 „Svo erum við með „lounge“ á efri hæðinni þar sem fólk getur fengið sér margarítur og bjór fyrir eða eftir matinn, eða það getur komið til okkar bara í kokkteil án þess að endilega fá sér eitthvað að borða,“ segir Ása. 

Spurð að því af hverju staðurinn hefur hlotið svona gífurlega góðar viðtökur segir Ása að auðvitað hafi maturinn tvimælalaust mjög mikið að segja, en einnig að stemningin virðist vera að slá í gegn. „Húsnæðið er mjög skemmtilegt. Við erum með þetta sérstaka glerþak og á heiðskírum kvöldum geta gestir horft beint upp í stjörnurnar og norðurljósin. Fólki þykir merkilegt að sjá norðurljósin á meðan það snæðir mexíkóskan mat. Allt þetta spilar saman, og með tónlistinni auðvitað, til að skapa skemmtilegt andrúmsloft.“ Ása bætir við að El Santo sé enn einn staðurinn sem opnar á Hverfisgötunni en sú gata er orðin gerbreytt á skömmum tíma.

„Margir hafa orð á því núna að Hverfisgatan sé orðin skemmtilegri og meira svöl en Laugavegurinn. Við götuna eru nú ótal veitingastaðir, barir og búðir og auðvitað frábært bió. Svo erum við með fallega Þjóðleikhúsið okkar beint á móti en vinsælt er að kíkja á okkur fyrir eða eftir sýningu í mat og/eða drykk. Það er mjög gaman að vera hluti af þessari götumynd.“  

El Santo er opinn til 23 virka daga en til kl. 01 fimmtudaga til laugardaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert