Eldamennska getur bjargað geðheilsunni

Flestir hversdagskokkar hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir meðferðargildi góðrar eldamennsku enda segir það sig nánast sjálft að matargerð getur haft heilandi áhrif á þann sem eldar. Þú þarft að hafa athyglina á verkefninu og nærð tímabundið að útiloka allt annað sem er afskaplega róandi og gott fyrir geðið.

Julie Ohana er það sem kallast culinary arts therapist eða matreiðsluþerapisti og skrifaði hún mastersritgerðina sína um það árið 2004 og hefur starfað við allar götur síðan. Í viðtali við Huffington Post segir hún að það sé sín reynsla að fólk sé oft að leita að óhefðbundnum meðferðarúrræðum og matreiðsluþerapía sé fullkomin fyrir það fólk.

Hún lætur viðskiptavini sína elda og allt mögulegt sé í boði. Bæði taki hún að sér hópa og það sé mjög vinsælt að senda fólk sem vinnur saman til sín. Eins sé hún með námskeið þar sem fólk skráir sig og um er að ræða nokkurs konar hópmeðferð og síðan sé í boði að koma heim til viðkomandi. Í lok eldamennskunnar (eða við matarborðið) fari fram samræða og fólk fái verkefni með sér heim.

Ohana segist trúa því staðfastlega að eldamennskan geti hjálpað fólki að takast á við þunglyndi, kvíða og sorg. Það að leggja erfiðar hugsanir til hliðar meðan tekist er á við verkefni sé góður staður til að byrja á. Eldamennska krefjist ákveðins aga þar sem þú þarft að kljást við sjálfan þig á uppbyggilegan hátt þar sem afraksturinn er svo sammannlegur; nefnilega máltíð sem ber að njóta.

Matreiðsluþerapía sé sérstaklega heppileg þegar verið er að kljást við sorg vegna þess hvað verið er að vinna með mörg skilningarvit.

Ohana spáir því jafnframt að matreiðsluþerapía sé næsta trendið í meðferðarúrræðum og ef marka má það sem hún segir þá má fastlega búast við að það sé rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert