Nýtt kaffihús í aldargömlu húsi

Á boðstólum verða samlokur, kökur, kaffi og áfengi en Anton …
Á boðstólum verða samlokur, kökur, kaffi og áfengi en Anton segir þá ætla að byrja smátt og sjá til hvort síðar verði einhverju bætt á matseðilinn. mbl.is/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Í aldargömlu húsi í Ólafsvík opna bræður nú kaffihúsið Kaldalæk. Þeir munu leggja áherslu á heimilislega stemmningu með góðu kaffi og bakkelsi. Á sumrin verður hægt að nýta pallinn en húsið tekur aðeins um fimmtán gesti í einu.

Þeir Anton Jónas og Ólafur Hlynur Illugasynir eru rúmlega tvítugir bræður frá Ólafsvík. Þeim fannst vanta stað fyrir ungt fólk að hittast á yfir kaffibolla eða ölkrús og ákváðu að taka til sinna ráða.

„Við erum að opna kaffihúsið Kaldalæk en okkur fannst vanta einhvern stað í Ólafsvík fyrir krakka til að koma saman og spjalla og í staðinn fyrir að bíða eftir að einhver annar myndi gera það ákváðum við að kýla á þetta,“ segir Anton, sem hefur orð fyrir þeim bræðrum.

Heimilislegt og kósí

„Við viljum hafa einfalt kaffihús með góðu kaffi og rólegri stemmningu. Fyrirmyndin er svolítið Reykjavík Roasters og Kaffihús Vesturbæjar. Ekki of stórt, heldur heimilislegt og notalegt.“

Á boðstólum verða samlokur, kökur, kaffi og áfengi en Anton segir þá ætla að byrja smátt og sjá til hvort síðar verði einhverju bætt á matseðilinn.

„Þetta verður allt rosalega heimilislegt; við verðum með brauð með rúllupylsu og flatkökur með hangikjöti. Ef ég myndi lýsa kaffihúsinu í stuttu máli myndi ég segja að það væri eins og að fara í kaffi til ömmu.“

Hús í hjarta bæjarins

Húsið er friðað, frá árinu 1910, og er aðeins um 30 fermetrar. „Þetta er í hjarta bæjarins, eitt af þessum eldgömlu húsum, en það er inni í Sjómannadagsgarðinum,“ útskýrir Anton.

Spurður hversu margir gestir komist að í einu svarar Anton að húsið taki í kringum fimmtán manns.

„En svo erum við með rosalega fínan pall hér fyrir utan sem gæti tvöfaldað fjöldann á góðum degi.“

Hugsað fyrir heimamenn

Anton segist alveg eiga von á erlendum ferðamönnum þótt staðurinn sé fyrst og fremst hugsaður fyrir heimamenn. „Túristarnir fylgja þar sem heimamennirnir fara. Við erum ekki að búa til túristastað en auðvitað eru allir velkomnir,“ segir Anton, sem mun sjálfur standa vaktina í sumar. Bróðir hans hyggst stunda strandveiðar í sumar en gæti stokkið til ef mikið verður að gera.

Bræðurnir hafa verið á sjó í vetur að fjármagna verkið og er Anton spenntur að opna í dag, laugardag. Það stefnir í fínasta veður og ætti því að verða stemmning á pallinum á Kaldalæk um helgina.

Kaffihúsið er heimilislegt en húsið sjálft er aðeins 30 fm
Kaffihúsið er heimilislegt en húsið sjálft er aðeins 30 fm mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert