Matvaran í Costco skoðuð – myndband

Matarvefurinn fór og kynnti sér matvöruna í Costco. Ekkert íslenskt grænmeti var í versluninni en það er þó ekki til frambúðar því verið er að vinna að því að bjóða upp á það. Gott úrval er af tilbúnum réttum, ostum, grænmeti og nautakjöti en það síðastnefnda mokseldist enda á góðu verði. 1,5 kg af nauta-ribeye kosta 4.990 krónur. 

Sérkælir er í einu horni verslunarinnar sem geymir ævintýralegt úrval af berjum og ávöxtum en þar má einnig kaupa tilbúna ávaxtabakka. Þess ber þó að geta að berin eru í stórum pökkum og eru frá sama framleiðanda og selur berin í Nettó, Hagkaup og Krónunni. Eitt kíló af kirsuberjum kostar 1.290 krónur og stórt box af hindberjum 990 krónur. Kirsuberinn hafa þó ekki sést í svo stórum pökkum hérlendis áður.

Athygli vakti að börn undir 16 ára aldri mega ekki smakka á kynningarbásum búðarinnar nema í fylgd með fullotðnum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að börn borði eitthvað sem þau hafa hugsanlega ofnæmi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert