Skyrterta með lakkrísbragði

Lakkrísskyrterta er próteinríkur eftirréttur í hollari kantinum.
Lakkrísskyrterta er próteinríkur eftirréttur í hollari kantinum. mbl.is/Hafdís P.

Hafdís Pricilla Magnúsdóttir á heiðurinn að þessari girnilegu uppskrift sem birtist á gottimatinn.is.  „Mér finnst fátt skemmtilegra en þegar hugurinn minn fer á uppskriftaflakk og „brainstormar“ og úr verður góð uppskrift sem virkilega er hægt að njóta.

Hér deili ég með ykkur einni svoleiðis uppskrift. Uppskrift sem varð til í vinnunni, þegar spjallað var um eftirrétti og ég hugsaði „ummm lakkríseftirréttur“. Ég krassaði ýmsar hugmyndir að botni og hlutföllum af fyllingu, fór í búð og keypti rjóma og skyr og þegar heim var komið, var tertan búin til. Ef þið viljið eitthvað gott og einfalt til að útbúa fyrir matargestina, í saumaklúbbnum eða bara til að gera ykkur glaðan dag, þá mæli ég með þessari tertu.“

Skyrterta með lakkrísbragði

Botn
120 g möndlumjöl
60 g smjör
1 msk. sukrin gold (má sleppa eða nota púðursykur í staðinn)
1 msk. ósykrað kakó
2 msk. kókosmjöl

Bræðið smjör í potti og bætið svo við rest af hráefnum og blandið vel saman.

Setjið í 20 cm sílikonform og þrýstið og dreifið jafnt yfir botninn á forminu.

Bakið við 180 gráður í 5 mínútur og látið kólna.

Fylling

400 ml Skyr.is með vanillu
300 ml rjómi
1 msk. Johan Bulow raf lakkrísduft eða annað lakkrísduft
50 g sykurlaust dökkt súkkulaði (má sleppa)
3 matarlímsblöð

Aðferð:

Þeytið rjómann.
Hrærið skyrinu saman við.
Saxið niður súkkulaðið og hrærið út í ásamt lakkrísduftinu.
Bræðið matarlím í potti ásamt 2 msk. af vatni.
Látið kólna örlítið og hrærið varlega við.
Hellið fyllingu yfir botninn og setjið í frystinn í 1,5-2 klst.
Fjarlægið tertuna úr forminu á meðan hún er frosin, setjið á tertudisk og geymið í kæli.
Ef þið viljið ekki nota matarlím eða eigið það ekki til, er hægt að sleppa því og setja botninn í eldfast mót og fyllinguna svo.

mbl.is/Hafdís P.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert