Fyrrum verslunarstjóri Bónus sakar verslunina um svindl

Guðmundur Matreinsson framkvæmdarstjóri Bónus segir það af og frá að …
Guðmundur Matreinsson framkvæmdarstjóri Bónus segir það af og frá að verslunin svindli í verðkönnunum. mbl.is/Golli

Stöðufærsla sem maður að nafninu Guðmundur Ás Birgisson skrifaði í gærkvöldi á facebooksíðuna Keypt í Costco Ísl. – Myndir og verð hefur valdið miklum usla. Guðmundur er fyrrum verslunarstjóri Bónus á árunum 1996 – 2001. Hann heldur því fram að verslunin og hann sjálfur þar með hafi svindlað á öllum verðkönnunum á þeim tíma sem hann starfaði þar og bendir á að ekki sé ólíklegt að svo sé enn. Fleiri aðilar sem starfað hafa í matvöruverslunum hafa blandað sér í umræðurnar og sumri hverjir játa að hafa tekið þátt í verðkönnunarsvindlum á árum áður.

mbl/skjáskot

Í samtali við Matarvef mbl.is segir Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus að hann þekki manninn sem skrifaði færsluna og viti af umræðunum. „Það sem mig grunar að hann sé að tala um er að á þessum tíma sem hann vísar í voru vörur skammtaðar fram í verslun til að koma í veg fyrir að verið væri að hamstra þær. Þetta voru helst vinsælar vörur sem voru seldar á lítilli eða engri álagningu. Það kom fyrir að stórir aðilar kæmu og tæmdu allt og því var þessu skammtað.”

Aðspurður um hvort þeir svindli ekki á verðkönnuðum segir Guðmundur það af og frá. Einnig er því haldið fram á þræðinum að leki sé frá ASÍ og verslanir fái því viðvörun áður en verðkannanir eru gerðar. Guðmundur segir það ekki satt og í raun sé ekki hægt að svindla á verðkönnunum nema þá helst ef verslanir eru með rafrænar merkingar geta svindlað á meðan starfsmaður frá ASÍ er í versluninni að  kanna verðin. „Ég veit ekki til þess að verið sé að svindla en það er helst þessi leið ef einhver.“

Guðmundur segir að verklagsreglur ASÍ séu mjög skýrar. „Verklagsreglur ASÍ eru stóra málið í þessu. Varan verður að vera vel aðgengileg viðskiptavininum og til í magni svo varan sé tekin með í könnunina. Allar kannanir eru birtar og ef það eru vörur og verð sem enginn kannast við sést það strax. Fólkið sem er að taka verðkannanir verslar líka í matinn og þekkir því alveg hvaða vörur eru til hvar og í hvaða magni.”

Aðspurður um hvort hann hafi áhyggjur af Costco svarar Guðmundur að koma Costco sé jákvæð. „Það er gott fyrir markaðinn að hrista aðeins upp í þessu.“

Sigurlaug Hauksdóttir verkefnastjóri verðlagseftirlitsins hjá ASÍ tekur í sama streng og segir það ekki hægt að svindla á verðkönnunum líkt og þær séu uppsettar í dag. „Kannanirnar eru gerðar án vitundar venslanna og farið er á öllum tíma dags svo það er enginn einn tími líklegri en annar. Við förum bæði í verslanir á höfuðborgarsvæðinu og út á landi og við breytum listanum svo það er ekki verið að skoða verð á sömu vörunni ítrekað. Við reynum að vera eins ófyrirsjánleg og hægt er. Það er í raun mjög erfitt að sjá við okkur. Við reynum að gera þetta eins vel og við getum. Það er tekið verð á hillu og búðin veit ekki af okkur fyrr en við mætum á svæðið,“ segir Sigurlaug sem hefur ekki fengið neinar tilkynningar um svindl.

„Við höfum ekki verið að fá neinar tilkynninga um svindl allavega ekki síðan að ég byrjaði núna um áramótin. Við höfum ekki farið eftir að Costco opnaði. Við fórum vikuna áður þegar enginn bjóst við okkur,“ segir Sigurlaug.

Ekki náðist í Guðmund Ás Birgisson við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert