Skotheld ráð fyrir skipulagt eldhús

ljósmynd/Elle Decor

Gott eldhús er gulli betra og þegar verið er að skipuleggja eldhús er gott að hafa ákveðin (gríðarlega mikilvæg) atriði í huga. Það vill nefnilega brenna við að eldhús séu kjánalega illa skipulögð og ógerningur sé að svo mikið sem sjóða hafragraut í þeim. Algengt er að búið sé að koma fyrir eldavél og vaski eftir kúnstarinnar reglum en svo sé nákvæmlega ekkert rými hugsað til að matbúa. 

En örvæntið eigi! Hér er listi yfir nokkur virkilega mikilvæg atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar eldhús er skipulagt. 

Aldrei of margar innstungur. Þegar verið er að taka eldhús í gegn skaltu bæta við eins mörgum innstungum og kostur er. Af hverju? Því maður þarf alltaf innstungur í eldhús. Innstungur eru góðar og fátt er meira pirrandi en að geta ekki stungið einhverri ofurgræju í samband vegna skorts á innstungum. 

ljósmynd/Elle Decor

Borðpláss skiptir sköpum. Sá reginmisskilningur virðist ríkja meðal margra að borðpláss safni bara drasli og háir skápar séu málið. Það upplýsist hér með að það er rangt. Borðpláss er nefnilega það allra mikilvægasta enda eru eldhús almennt hugsuð sem vinnustöðvar og á góðum vinnustöðvum þarf mikið og gott vinnurými. Ekki satt? Fækkaðu því skápunum, einblíndu á borðplássið og hafðu frekar bera veggi en skápum hlaðna. 

ljósmynd/Elle Decor

Borðplatan skiptir öllu. Hér er lykilatriði að velja vel enda er borðplatan ákaflega mikilvæg. Í draumaheimi rignir marmara en fyrir þá sem hafa ekki alveg fjárráðin í slíkt má benda á marmaraplötur í IKEA sem kosta undir 10 þúsund krónum og koma vel út. Fanntófell eru meðal þeirra sem selja sérsniðnar borðplötur og svo mælum við með að þið kíkið upp í Orgus og skoðið corian-borðplöturnar sem eru sérsmíðaðar þar. 

ljósmynd/Elle Decor

Smá bling! Fyrir þá sem geta ekki slitið augun af skáphurðunum á myndinni má benda á að hægt er að spónleggja hurðir með efnum á borð við Formaica sem fæst í ýmsum áferðum, þar með talið gulli, bronsi og brass. Kemur ótrúlega vel út. 

ljósmynd/Elle Decor

Ekki gleyma bakgrunninum. Það er ótrúlegt hvað bakgrunnur gerir mikið fyrir borðið. Möguleikarnir eru líka endalausir. Flísar, parket, gler, speglar, marmari eða hvað sem hugurinn girnist. Einfaldasta og ódýrasta leiðin er að mála bagkrunninn (vegginn fyrir aftan eldhúsbekkinn) í öðrum lit eða litatón en oft þarf ekki mikið til að gjörbreyta eldhúsinu. 

ljósmynd/Elle Decor

Burt með draslið. Það er fátt ljótara en glundroðakennd eldhús sem eru yfirfull af drasli. Það eru allar líkur á að þú þurfir ekki á helmingnum af dótinu að halda sem prýðir eldhúsið þitt. Reyndu eins og þú getur að koma hlutunum (þessum nauðsynlegu) haganlega fyrir og raðaðu hinu snyrtilega upp. Eldhúshillur verða líka alltaf meira spennandi þegar maður laumar inn hlutum sem oft sjást ekki í eldhúshillum eins og myndum, hátölurum, styttum og bókum. Hér má sjá hinar klassísku String-hillur sem fást hérlendis í Epal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert