Mexíkó íhugar að fara í mál við Heineken

Ljósmynd/Heineken

Mexíkó íhugar af fúlustu alvöru að höfða mál á hendur bjórframleiðandanum Heineken fyrir óviðurkvæmilega notkun á þjóðardrykknum tekíla. 

Heineken setti á markað svokallaðan tekílabjór og er mexíkóum allt annað en skemmt. Þeir hafa lagt mikinn metnað í að breyta ímynd tekíla á undanförnum árum úr því að vera partýdrykkur sem tryggir hámarksölvun á sem skemmstum tíma yfir í að vera fágaður drykkur sem smekkfólk drekkur. 

Tekílaráð Mexíkó segir að ekkert mælanlegt magn af alvöru tekíla sé í bjórnum og því sé um misnotkun á vörumerki að ræða. Að sögn formanns ráðsins sé þetta uppátæki sem ekki sé hægt að sætta sig við né líta fram hjá. 

Heineken heldur því hins vegar fram að alvöru tekíla sé vissulega í bjórnum sem heitir Desperados án þess þó að gefa upp hversu mikið auk þess sem hann hafi legið í gömlum tekílatunnum.  

Tekílabjórar hafa þó hlotið takmarkaðar viðtökur og hefur Heineken nú þegar hætt framleiðslu Desperados í Bandaríkjunum. 

Ljósmynd/Heineken
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert