Fimm fæðutegundir sem þú heldur að séu hollar en eru það ekki

www.epicurious.com

Oft borðum við mat í góðri trú og höldum að við séum að standa okkur gríðarlega vel. Eins og gefur að skilja er það fremur svekkjandi að komast að því að svo er ekki og því tókum við saman lista yfir fimm fæðutegundir sem þið haldið mögulega að séu hollar en eru það bara alls ekki.

1. Hnetusmjör: Aðgát skal höfð í nærveru hnetusmjörs en oftar en ekki er það auglýst sem fituminna og betrumbætt sem þýðir í raun að búið er að fjarlægja fullt af hollum fitum úr því og bæta við alls kyns gerviefnum og sykri til að auka bragðið. Lykillinn er að kaupa hnetusmjör sem inniheldur bara efni sem þú þekkir. Hvað er til dæmis tocopheryl acetate? Er það nauðsynlegt? Við höldum ekki og biðjum ykkur að vanda valið.

2. Sykurlaust gos: Hélduð þið að þetta væri grín? Að sykurlausir gosdrykkir væru einhvers konar svar alheimsins við bráðri sykurþörf ykkar? Því miður er gosið kannski sykurlaust en það slæma er að gervisykurinn veldur aukinni hættu á offitu þar sem hann ruglar eðlileg viðbrögð líkamans við sykri sem veldur því að hann losar ekki eðlileg hormón sem jafna blóðsykurinn og blóðþrýsting líkamans. Þeir sem drekka mikið af sykurlausum drykkjum eru 30% líklegri til að þjást af þunglyndi. 

3. Hnetusnarl: Þið kannist við þetta. Oft kallað göngusnarl eða útivistarfóður og auglýst sem ægilega hollt og orkugefandi. Látið ekki blekkjast og lesið umbúðirnar vandlega. Oftar en ekki innihalda pokarnir geigvænlegt magn af sykri og salti sem gera ykkur ekkert gott. Lófafylli getur innihaldið yfir 300 hitaeiningar. Haltu þig heldur við hefðbundnar hnetur. 

4. Tyggjanlegt C-vítamín: Þetta kann að hljóma undarlega en C-vítamíntöflur eru ekki allar þar sem þær eru séðar – þessar tyggjanlegu þá. C-vítamín er nefnilega askorbínsýra og fer hún hryllilega illa með tennurnar svo að ekki sé meira sagt. Mun verr en hreinn sykur. Haldið ykur því frá þessum alræmdu tuggutöflum. 

5. Þurrkaðir ávextir: Margur heldur að hér sé um himnasendingu að ræða en svo er bara alls ekki. Vissulega eru einhverjar gerðir sem eru náttúrulegar þannig að lesið vel á umbúðirnar en alla jafna er búið að sykra og salta herlegheitin og hollustan fer fyrir lítið þegar henni er drekkt í vitleysu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert